Hallgrímskirkja, 4/2 2018 – Biblíudagurinn

— —

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

– – – – 

I.

Nú er margt fólk var samankomið, og fjöldi úr stöðunum var farinn út til hans, sagði hann þeim þessa dæmisögu: Sáðmaður nokkur fór að sá akur sinn, en er hann var að sá, féll sumt sæðið við veginn og varð fóttroðið, og átu fuglar það. Sumt féll í grýtta jörð, og er það óx, skrælnaði það, því það vantaði vökva; sumt féll meðal þyrna, uxu þeir upp með og kæfðu það; en sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt. Þegar hann hafði þetta sagt, kallaði hann hátt og sagði: hvör hann hefir eyru að heyra með, hann heyri. Síðan spurðu lærisveinar hans, hvað þessi dæmi-saga ætti að þýða. Hann mælti: yður er unnt að skilja leynda lærdóma Guðs ríkis; hinum öðrum kenni eg í dæmisögum. Því þó þeir sjái, er það, sem sæju þeir ekki; og þó þeir heyri, sem heyrðu þeir ekki. En þessi er útskýring dæmisögunnar: Sæðið merkir Guðs orð; það, sem féll við veginn, þýðir þá, sem nema það; síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hugskotum þeirra, að þeir ekki skuli trúa og verða hólpnir. En það, sem féll í grýtta jörð, merkir þá, sem heyra mína kenningu og taka við henni með fögnuði, en vegna þess þeir hafa ekki rætur, trúa þeir aðeins um stundarsakir, en falla frá á tímum freistinganna. En það sæðið, er meðal þyrna féll, merkir þá, sem heyra mína kenningu, en sökum búksorgar og þessa lífs vellystinga kefjast þeir jafnótt og ná ekki þroska. En það, er féll í góða jörð, merkir þá, er heyra mína kenningu, geyma hennar í góðu og siðsömu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi. (Lúk 8.4-15 – Viðey 1841)

Nú heyrðu þeir sem heyra – og jafnvel hinir líka – að þetta var guðspjall dagsins en með örlítið öðrum brag en það var fram borið hér rétt áðan. Ég gerði það að gamni mínu að lesa þetta yfir með þessum hætti til þess að vekja athygli á því að á nýjum vef Hins íslenska Biblíufélags má nálgast fjórar útgáfur af íslenskum þýðingum á hinni helgu bók. Það vill segja nýjustu útgáfuna frá 2007, og svo þá frá 1981, Viðeyjarbiblíuna frá 1841 og svo sjálfa Guðbrandsbiblíuna frá 1584. Þetta var Viðeyjarversjónin sem ég las hér upp – örlitlar orðalagsbreytingar, boðskapurinn að sjálfsögðu sá sami.

Það var ekki gert í auglýsingaskyni að lesa þessa útgáfu af blessuðu guðspjallinu – það var gert til þess að minna á að þessi texti er gamall – og til að minna á hitt; að hann má ekki gleymast. Það er nefnilega ekki minnstur boðskapurinn í þessum orðum Frelsarans; afdráttarlaus viðvörun hans um þá hættu að boðskapurinn falli í gleymskunnar dá.

Við erum alltaf að gleyma. Gleymum gömlum þýðingum; gleymum þýðingu gamalla þýðinga – gleymum til hvers var sáð; gleymum sáðmanninum og síðast en ekki síst sjálfum okkur. En frá degi til dags er okkur alveg sama um alla þessa gleymsku – við erum nefnilega með okkur sjálf í símunum og getum flett okkur upp og það er ekki fyrr en djöfullinn kemur og tekur það allt burt úr vinnsluminni þeirra að við finnum okkur týnd. Já ég sagði það; finnum okkur týnd.

II.

Margt sem þér fannst

í meira lagi heimaríkt

framseldir þú í hendur

faríseum og æðstu prestum –

 

en það glóði við glugg þinn að morgni!

Það bregður áfram

draumkenndu ljósi yfir dag þinn!

Því rignir í koll þinn öll kvöld!

Það talar í trjánum!

 

Og skefur um síðir í skafl yfir þitt

hinzta var.

 

Svo yrkir Þorsteinn frá Hamri, nú rétt nýlega burt reistur til skapara síns, í ljóði sínu „Útskúfun“ – blessuð sé minning þess mikla skálds sem aldrei má gleymast.

Þorsteinn hafði orðaforða frábæran, skáldlegt næmi ótakmarkað – eða fast að því – bókmenntaþekkingu glæsilega. Þorsteinn frá Hamri fleygaði ekki ljóð sín með óþarfa – sló ekki tröllslega um sig með tilvitnunum eða vísunum heldur notaði slíkt af listfengi og þegar skáldskapargyðjan bað auðmjúk um slíkt.

Skoðum þetta ljóð aðeins nánar: Hvað var eitt sinn svo heimaríkt? Hvað kallar á vísun í Píslarsögu Krists um framsal í hendur faríseum og æðstuprestum? Hvað glóði við glugg? Hvað fylgdi þér draumkennt? Hverju rigndi í kollinn að kvöldi? Hvað talar í trjánum? En hittir þig svo og skefur yfir þig í þínu hinsta vari?

Já og nú brýni ég eins og brýnt var forðum: hvör hann hefir eyru að heyra með, hann heyri.

Já, um hvað er Þorsteinn að tala? Ég hef mína kenning um það – og telst hafa bærilegar forsendur til að rýna þar í og greina.

Það er, trúin, Orðið – sú hin gamla sáning. Það sem var jafnvel reynt að gleyma, en gat ekki gleymst. Arfurinn okkar allra, hvort heldur við viljum vera nefnd í erfðaskránni eða ekki, arfurinn sem hefur leitt þessa þjóð og hún kallað til á sínum erfiðustu – ég kann ekki við að segja skelfilegustu augnablikum, en segi það samt – arfurinn sem svo þessi sama þjóð vill endilega gleyma. Þegar hentar og þá er viðrar betur til þessa lífs vellystinga, þegar auðurinn glitrar og gjálífið blómstrar á sínum visnandi stöngli. Þá passar að gleyma.

 

III.

Við erum svo dæmalaust gleymin, hann kallar það að trúa „um stundarsakir“ – Meistarinn frá Nasaret. Við erum alltaf að vesenast eitthvað „um stundarsakir“ – og svo ekki meir – fyrr en um næstu og svo þarnæstu „stundarsakir“. Við gætum, þess vegna, kallað það meistaramánuð – hann varir nú um stundarsakir og gleður og gælir við sjálfið. Eða nærir geðvonskuna í einstaka framtakslausum hjassa eins og mér – um stundarsakir.

Orð Guðs varir að eilífu,  – en er Orðið orð ef enginn er til þess að lesa það og engir vilja heyra það? Vissulega er þetta heimspekileg spurning – en að mínu mati er svarið við henni augljóst. Boðskapur orðsins sem hér um ræðir, skiptir þar sköpum; boðskapurinn og eftirspurnin eftir honum. Boðskapurinn lifir í okkur og með okkur sem hér erum – en eins og bent var á fyrir um 2000 árum – með magnaðri aðferð – er okkur ofviða að fara eftir honum, boðskapnum, nema um stundarsakir. Orðið ratar sem sagt til sinna – því það er leiðarvísir um ranghala lífsins. Það er eina sjálfshjálparbókin sem þykist ekki hafa svörin við öllu – því Biblían svarar alls ekki öllu; skárra væri það. Því er Orðið áfram orð – þetta tiltekna orð, Biblían – þótt svo færi að allir legðust á eitt um að gleyma því.

Það þýðir þó ekki að það sé best að gera þá vitlausu tilraun – sem maður heldur stundum að sé í fullum gangi.

Frekar er að gera eins og Þorsteinn frá Hamri og viðurkenna að maður getur ekki og á ekki að ráða allar gátur; við skiljum ekki tilgang lífins og við vitum ekki hvað tekur við eftir lífið – Kristur sagði við lærisveina sína:

„[Y]ður er unnt að skilja leynda lærdóma Guðs ríkis; hinum öðrum kenni eg í dæmisögum. Því þó þeir sjái, er það, sem sæju þeir ekki; og þó þeir heyri, sem heyrðu þeir ekki.“

Þorsteinn heitinn frá Hamri segir í ljóðinu „Sköpunin I“, við okkur – já, við getum allt eins kallað okkur, lærisveina. Hann segir:

Reyndu aldrei að ráða gátuna – hver það sé, sem sáir fræjum sköpunarinnar: þeim sem líða lítt sýnileg um rökkvað bláloftið mörg saman skömmu fyrir skin óvæntra funda, og örkorninu smáa sem fellur í hjartað og elur af sér tré með tveim aldinum, öðru til vitnis um að þú elskir, hinu til marks um að þú deyrð.

Okkur er gjarnt að gleyma, – því yrði ráðning gátunnar að öllum líkindum aðeins vísdómur okkar um stundarsakir. Við höfum þessa vissu að fæðast og deyja. Sú er yfirdrifin vissa fyrir mannkyn með minnisglöp á háu stigi. Biblían geymir svo vísdóminn um allt hitt – og kýs að segja okkur sumt af því. Ekki allt, það köllum við dulúð. Við lifum með þeirri mystík sem þar er að finna og hún nærir í okkur andann – hvort heldur við erum skáld eins Þorsteinn eða með aðrar náðargjafir Guðs í farangrinum.

Við megum samt aldrei tapa niður, aldrei gleyma, því þunga hlutverki kristinna manna að boða óendanlega náð Guðs, en þá verður heldur ekki vikist undan því að ávarpa syndina, okkur ber og að útleggja lögmálið og guðdómlegt fagnaðarerindi Jesú Krists sem var krossfestur okkar vegna, fyrirgefninguna sem í því fólst en þá um leið útskýra iðrunina og afturhvarfið.

Til alls þessa er Biblían brúkleg í heild sinni, einstakir textar og Guði sé lof, textar frá góðum skáldum sem kunna að lesa. Og vísa, til vegar – lengur en um stundarsakir. Arfurinn og þýðing hans, þýðingin sjálf gerir okkur að þeim mönnum sem við viljum vera – sem við viljum reyna að vera, þrátt fyrir gleymskuna.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.