Eins og margt kristið fólk sem snýr aftur til Íraks, hafa Ihsan og Lara misst heimili sitt í kjölfar þess harmleiks sem baráttan við ISIS hefur haft í för með sér. Svo er styrktarfólki okkar fyrir að þakka, að Biblían kemur með huggun og von, er þau hefja nýtt líf.

 

Hin forna borg, Níníve, sem nú á dögum nær yfir svæði borgarinnar Mosul í Írak, á sér skrautlega sögu. Í Gamla testamentinu er greint frá því hvernig Guð forðaði henni frá eyðingu, með því að senda ófúsa lærisveininn Jónas þangað. En á undanförnum árum hefur hún verið sögusvið fjöldatortímingar hins svonefnda Íslamska ríkis og yfirvalda í Írak sem börðust um stjórn borgarinnar.  ISIS missti tökin í borginni í ágúst árið 2017 og nú eru hundruð fjölskyldna á heimleið.

 

Ég ferðaðist þangað til þess að komast að því hvernig kristið fólk sem sneri aftur spjaraði sig og hvernig við gætum hjálpað því. Ferðin til Níníve-svæðisins var átakanleg og sársaukafull þar sem hvarvetna mátti sjá gríðarmiklar skemmdir sem fengu mikið á mig; húsum og kirkjum var gjöreytt í eldi, þau tekin herfangi og í nokkrum tilfellum sundurgrafin í ótal göng.

 

Þrautseigja frammi fyrir eyðileggingu

 

Þar sem ég gekk í gegnum yfirgefinn markað og sá grjótmulningana sem eitt sinn höfðu verið heimili kristinna manna, var erfitt að sýna hugprýði. En furðu lostinn tók ég einnig eftir gífurlegri þrautseigju flóttafólksins, þegar ég heimsótti Al-Tahera-kirkjuna, sem fyrrum var ein stærsta og fallegasta kirkjan í Írak, og við mér blasti lítill söfnuður sem bað ásamt presti sínum mitt í óreiðu hinnar stórskemmdu kirkju.

 

Ungt par varð á vegi mínum, Ihsan og Lara að nafni, en bæði voru þau frá Qaraqosh þar skammt frá, en það er stærsta, kristna borgin í Írak. Þau eiga tvö börn og Ihsan starfaði sem járnsmiður þar til ISIS náði völdum í borg þeirra í ágúst 2014. Þau höfðu ekki um neitt annað að velja en að flýja úr fallega, nýja húsinu sínu, sem hafði kostað blóð, svita og tár að byggja í sex ár.

 

En það var ekki heimilið sem olli hinni djúpu sorg hjá Ihsan, heldur andlát móður hans. Hún lést nokkrum dögum eftir að þau flýðu Qaraqosh inn í kirkjuna, sem þau dvelja í ásamt fleiri íröskum flóttamannafjölskyldum. Þar sem hann var enn í áfalli vegna andláts móður sinnar sagði hann: „Ekkert er mikilvægara en móðir mín, hún var mér allt. Ímyndaðu þér að missa mömmu þína við þessar aðstæður.“

 

„Ofsóttur en þó ekki yfirgefinn, felldur til jarðar en tortímist þó ekki“ (2Kor 4.9)

 

Ég varð þeim samferða til Qaraqosh til þess að skoða húsið þeirra, sem var orðið að grjóthrúgu. Eins og svo margt kristið fólk sem hafði snúið aftur, lét parið verða sitt fyrsta verk að fjarlægja bókstafinn „N“ í arabísku sem hafði verið roðið á hurðina, en það merkir „Nasrani“ (kristinn),[1] en það gaf til kynna að þarna bjó kristið fólk og íbúarnir gætu beðið bana. Það getur verið að þið kannist við þetta þar sem fólk víðs vegar um heim tók þetta upp á samfélagsmiðlum til þess að sýna samstöðu með kristnu fólki í Írak.

 

Ég sá mikið veggjakrot á húsum kristinna manna. Sums staðar stóð: „Engar fleiri kirkjur — Íslamska ríkið er til staðar og í vexti“ en párað hafði verið yfir þetta víða með staðhæfingum á borð við „Jesús er ljós heimsins“ og „Guð er kærleikur“.

 

„Við berum Jesú vitni og upprisu hans á meðan við lifum hér eins og kristnir forfeður okkar gerðu. Til grundvallar liggur 2.000 ára saga, hvernig getum við neitað því?“

 

Ihsan sagði: „Við þurfum að snúa aftur, vegna þess að þetta er líf okkar og heimili — saga okkar, og kirkjan hefur alltaf hjálpað okkur. Biblíufélagið vinnur einnig gott starf. Við öðlumst styrk fyrir hjálp þess. Við trúum því að Guð hafi leyft sársaukanum að leiða í ljós gæsku og kærleika.“

 

„Við berum Jesú vitni og upprisu hans á meðan við lifum hér eins og kristnir forfeður okkar gerðu. Til grundvallar liggur 2.000 ára saga, hvernig getum við neitað því?“ Er ég yfirgaf Ihsan og Laru fann ég fyrir krafti Guðs og fullvissunni um traust þeirra á honum.

 

Stuðningur þinn skiptir sköpum

 

Svo er ótrúlegu styrktarfólki okkar fyrir að þakka, að Biblíufélagið getur útvegað Biblíur og matarpakka sem dreift er af kirkjunum á staðnum. Áfallahjálp okkar sem byggð er á Biblíunni hjálpar einnig flóttafólkinu að tala út um reynslu sína og uppgötva kærleika Guðs í sinn garð.

 

Verið svo væn að biðja með okkur (https://www.biblesociety.org.uk/get-involved/prayer-tree/prayer-tree-the-middle-east) fyrir kristnu fólki í Írak sem enn dvelur sem flóttafólk erlendis. Það er úrvinda, bæði líkamlega og andlega og býr við skelfilegar aðstæður. Nú, þegar borgir þess eru frjálsar undan yfirráðum ISIS, hefur nokkur fjöldi tekið að snúa aftur heim. Kirkjur og önnur samtök aðstoða fólk við að endurreisa hús þess, en tilfinning óvissu og óöryggis býr enn djúpt í hjörtum þess. Þökk fyrir að þið styðjið við bakið á þessu fólki.

 

Þessi grein var skrifuð af samskiptafulltrúa Hins jórdanska biblíufélags.

 

[Þýðing: Þorgils Hlynur Þorbergsson]

 

[1] Eiginlega „frá Nasaret“ þar sem Jesús Kristur var þaðan sjálfur. (ÞHÞ)