Davíð sigrar Ammóníta og Aramea

1 Nokkru síðar bar svo við að konungur Ammóníta dó og Hanún, sonur hans, varð konungur eftir hann. 2 Þá sagði Davíð: „Ég ætla að sýna Hanún Nahassyni vináttu eins og faðir hans sýndi mér.“ Davíð sendi því menn til hans og lét þjóna sína færa honum samúðarkveðjur vegna fráfalls föður hans.
Þegar þjónar Davíðs komu til lands Ammóníta 3 sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún, húsbónda sinn: „Heldurðu að Davíð hafi það eitt í huga að heiðra minningu föður þíns þegar hann sendir menn með samúðarkveðjur? Ætli Davíð hafi ekki öllu heldur sent þjóna sína til þín til að afla upplýsinga um borgina og njósna um hana til að geta brotið hana?“
4 Hanún lét þá grípa þjóna Davíðs, raka af þeim hálft skeggið og skera föt þeirra til hálfs, allt upp að þjóhnöppum, og lét þá svo fara.
5 Þegar Davíð hafði verið sagt þetta sendi hann menn til móts við þá. Af því að mennirnir höfðu verið niðurlægðir á svívirðilegan hátt lét konungur skila til þeirra: „Verið um kyrrt í Jeríkó þar til skegg ykkar er sprottið aftur. Þá skuluð þið koma heim.“
6 Ammónítum varð nú ljóst að þeir höfðu gert Davíð að hatursmanni sínum. Þeir sendu þá menn til að ráða málaliða, tuttugu þúsund arameíska fótgönguliða frá Bet Rehób og Sóba, þúsund manns frá konunginum í Maaka og tólf þúsund frá Tób. 7 Þegar Davíð frétti þetta sendi hann Jóab af stað ásamt öllum hernum, öllum vopnfærum mönnum. 8 Þá héldu Ammónítarnir út úr borginni og fylktu sér til orrustu fyrir framan borgarhliðið en Aramearnir frá Sóba og Rehób, ásamt mönnunum frá Tób og Maaka, stóðu einir sér úti á völlunum. 9Þegar Jóab varð ljóst að árásarlið ógnaði honum í bak og fyrir valdi hann menn úr úrvalsliði Ísraels og fylkti þeim gegn Arameunum. 10 Það sem eftir var af hernum setti hann undir stjórn Abísaí, bróður síns, sem fylkti honum gegn Ammónítum. 11 Þá sagði Jóab: „Ef Aramear reynast öflugri en ég verðurðu að koma mér til hjálpar. En reynist Ammónítar þér yfirsterkari kem ég þér til hjálpar. 12 Sýndu nú hugrekki. Við skulum berjast hraustlega fyrir þjóð okkar og borgir Guðs okkar en Drottinn gerir það sem honum þóknast.“
13 Jóab og lið hans réðst nú til atlögu gegn Arameum en þeir flýðu undan honum. 14Þegar Ammónítar sáu að Aramear voru flúnir lögðu þeir á flótta undan Abísaí og tókst að komast inn í borgina. Eftir bardagann við Ammóníta sneri Jóab heim til Jerúsalem.
15 Þegar Arameum varð ljóst að Ísraelsmenn höfðu sigrað þá söfnuðust þeir aftur saman. 16 Hadadeser sendi menn til að kveðja Arameana, sem bjuggu handan fljótsins, til herþjónustu. Þeir komu til Helam undir stjórn Sóbaks, hershöfðingja Hadadesers.
17 Jafnskjótt og Davíð var tilkynnt um þetta safnaði hann öllum Ísrael saman, fór yfir Jórdan og hélt til Helam. Þar fylktu Aramear liði gegn Davíð og réðust til atlögu við hann. 18 En Aramear urðu að flýja undan Ísraelsmönnum. Davíð braut sjö hundruð stríðsvagna Aramea og felldi fjörutíu þúsund riddara. Hann felldi einnig Sóbak, hershöfðingja þeirra, og lét hann þar lífið.
19 Þegar öllum undirkonungum Hadadesers var orðið ljóst að þeir höfðu verið ofurliði bornir af Ísraelsmönnum sömdu þeir frið við Ísrael og gengu honum á hönd. Þaðan í frá þorðu Aramear ekki að hjálpa Ammónítum.