Ríkiserfðir eftir Davíð
Davíð og Mefíbóset
1 Einhverju sinni spurði Davíð: „Er nokkur maður af ætt Sáls enn á lífi? Ef svo er vil ég sýna þeim manni vinsemd vegna Jónatans.“
2 Meðal þeirra, sem þjónuðu fjölskyldu Sáls, var maður að nafni Síba. Hann var nú kallaður fyrir Davíð og konungur spurði hann: „Ert þú Síba?“ Hann svaraði: „Já, herra.“ 3Því næst spurði konungur: „Er nokkur eftir af ætt Sáls sem ég get sýnt gæsku Guðs?“ Síba svaraði konungi: „Einn sona Jónatans er á lífi, lamaður á báðum fótum.“ 4 „Hvar er hann?“ spurði konungur. „Hann býr í húsi Makírs, sonar Ammíels, í Lódebar,“ svaraði Síba. 5Davíð konungur sendi þá menn eftir honum í hús Makírs Ammíelssonar í Lódebar. 6 Þegar Mefíbóset, sonur Jónatans, sonar Sáls, kom til Davíðs féll hann fram á ásjónu sína og sýndi honum lotningu. Davíð sagði: „Mefíbóset,“ og hann svaraði: „Já, herra.“ 7 Þá sagði Davíð við hann: „Vertu óhræddur. Ég ætla að sýna þér vinsemd vegna Jónatans, föður þíns. Ég ætla að skila þér aftur öllum jarðeignum Sáls, afa þíns, og síðan skaltu jafnan matast við borð mitt.“ 8 Þá varpaði Mefíbóset sér niður fyrir honum og sagði: „Hvað er þjónn þinn, herra, að þú sinnir dauðum hundi eins og mér?“
9 Konungurinn kallaði þá á Síba, þjón Sáls, og sagði við hann: „Ég hef gefið syni[húsbónda þíns allt sem Sál og fjölskylda hans átti. 10 Þú skalt yrkja landið fyrir hann ásamt sonum þínum og vinnumönnum og færa honum hagnaðinn af því svo að sonur húsbónda þíns hafi lífsviðurværi. Mefíbóset, sonur húsbónda þíns, mun héðan í frá jafnan matast við borð mitt.“ Síba átti fimmtán syni og hafði tuttugu vinnumenn. 11 Síba svaraði konungi: „Allt þetta mun ég gera, rétt eins og þú, herra minn og konungur, hefur skipað þjóni þínum.“
Mefíbóset sat síðan til borðs með Davíð eins og hann væri einn af sonum konungs.
12 Mefíbóset átti ungan son sem hét Míka. Allir sem bjuggu í húsi Síba urðu þjónar Mefíbósets. 13 Hann bjó síðan í Jerúsalem af því að hann sat jafnan til borðs með konungi. Mefíbóset var lamaður á báðum fótum.