Bæn Davíðs

18 Þá gekk Davíð konungur inn, settist frammi fyrir augliti Drottins og sagði: „Hver er ég, Drottinn Guð, og hvað er ætt mín úr því að þú hefur látið mig ná svona langt? 19 Og samt nægði það þér ekki, Drottinn Guð, því að þú hefur að auki gefið ætt minni, sem er þjónn þinn, fyrirheit um fjarlæga framtíð. Það er mönnum til leiðsagnar, Drottinn Guð. 20 Hvað getur Davíð sagt við þig umfram þetta? Þú þekkir þjón þinn, Drottinn Guð. 21 Þú hefur unnið þetta stórvirki vegna loforðs þíns og samkvæmt vilja þínum og skýrt mér, þjóni þínum, frá því. 22 Þess vegna ert þú mikill, Drottinn Guð. Enginn jafnast á við þig og enginn er Guð nema þú eins og við höfum heyrt með okkar eigin eyrum. 23 Er nokkur þjóð á þessari jörð sem jafnast á við þjóð þína, Ísrael? Hvenær hefur Guð farið og leyst nokkra þjóð úr ánauð, gert hana að sínum eignarlýð, víðfrægt nafn hennar og unnið fyrir hana mikil og ógnvekjandi verk? Þetta gerðirðu þegar þú hraktir á braut aðrar þjóðir og guði þeirra undan þjóð þinni sem þú hafðir leyst úr ánauð í Egyptalandi. 24 Þú hefur gert Ísrael að lýð þínum um aldur og ævi og þú, Drottinn, hefur gerst Guð hans. 25 Drottinn Guð, haltu ævinlega það fyrirheit sem þú gafst þjóni þínum og ætt hans. Gerðu það sem þú hefur lofað. 26 Þá verður nafn þitt ævinlega mikið og menn munu segja: Drottinn hersveitanna er Guð Ísraels. Ætt Davíðs, þjóns þíns, mun þá jafnan standa fyrir augliti þínu. 27 Þú, Drottinn herskaranna, Guð Ísraels, hefur opinberað þjóni þínum þetta og sagt: Ég mun reisa þér hús. Þess vegna hef ég, þjónn þinn, vogað mér að biðja þig þessarar bónar. 28 Drottinn Guð, þú einn ert Guð. Orð þín munu rætast. Þú hefur heitið mér, þjóni þínum, þessari farsæld. 29 Blessa þú nú ætt þjóns þíns svo að hún sé ævinlega fyrir augliti þínu. Því að þú sjálfur, Drottinn Guð, hefur lofað þessu. Fyrir blessun þína verður ætt mín, sem er þjónn þinn, blessuð um aldur og ævi.“