Vinsælustu biblíutextarnir í Bandaríkjunum, samkvæmt biblíuleitarvélinni Bible Gateway, skipta fylkjum landsins í tvo hópa. Þegar horft er framhjá Jóhannesarguðspjalli 3.16, sem reyndist vinsælasta versið í 47 fylkjum, þá eru tvö vers sem skera sig úr í vinsældum. Annars vegar Jeremía 29.11 og hins vegar Filippíbréfið 4.13, en þessir þrír textar voru vinsælustu textarnir í öllum fylkjum Bandaríkjanna þó röðin hafi ekki alltaf verið sú sama.
Samkvæmt ítarlegri úttekt síðunnar þá var Jeremía 29.11, vinsælasta versið í þremur fylkjum og næstvinsælasta versið í 29 fylkjum, meðan að Filippíbréfið 4.13 naut næstmestrar hylli í 18 fylkjum. Fyrir áhugafólk um bandarísk stjórnmál, má sjá kunnuglega skiptingu á landakortinu sem fylgir fréttinni. Starfsfólk Bible Gateway bendir þó á að munurinn hafi verið mjög lítill víða. Bible Gateway, er biblíuleitarvél með yfir 200 biblíuþýðingum á 70 tungumálum.
Jeremía 29.11
Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður segir Drottinn fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.
Filippíbréfið 4.13
Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.