Í Hebreabréfinu 4.12 segir að orð Guðs sé lifandi og kröftugt, og sú er raunin þegar horft er um öxl yfir dreifingarstarf Sameinuðu biblíufélaganna árið 2016. Milljónir manna til viðbótar geta gengið að Biblíunni fyrir tilstilli trúfasts og fórnfúss dreifingarstarfs sem á sér stað víðs vegar um jarðarkringluna, og spennandi, nýjar leiðir opnast þar sem ekki þarf lengur að lesa Biblíuna í prentuðu máli. Þessi nýja miðlun Orðs Guðs rýfur hefðbundnar hindranir landa og lýða, þar sem stafrænt niðurhal Biblíunnar hefur ríflega tvöfaldast frá árinu þar á undan.

Við vitum að Orð Guðs mun aldrei hverfa aftur við svo búið heldur kemur því til leiðar sem Guði þóknast og framkvæmir það sem Hann felur því (Jes 55.11). Við getum glaðst saman yfir öllu því sem Hann kemur til leiðar vegna hinna mörgu Biblía sem litið hafa dagsins ljós og náð til hjartna fólks fyrir dreifingarstarf biblíufélaganna árið 2016.

Dreift hefur verið rösklega 400 milljónum biblíurita

Nú hafa Biblíufélögin dreift rösklega 400 milljónum biblíurita víðs vegar um heiminn, þar á meðal rúmlega 34 milljónum Biblía. Sá fjöldi nægir fyrir rösklega 5% jarðarbúa. Það sem af er þessum áratug hafa Sameinuðu biblíufélögin dreift nægu biblíuefni handa tveimur af hverjum fimm íbúum þessarar plánetu.

Heildarfjöldi ársins 2016 — nærri 401,4 milljónir — inniheldur Biblíur, Nýja testamenti, guðspjöllin og biblíubæklinga, ætlaða til lestrarkennslu. Fjöldinn er ögn minni en árið á undan, en hefur þó aukist um 34 milljónir eintaka frá árinu 2010. Tölurnar eru teknar saman út frá árlegum fjölda skráninga sem tilkynntar eru biblíufélögum víðs vegar um heiminn og fela í sér sölu á hverjum stað og útflutning á efni tengdu Ritningunni.

Gögnum var safnað allt til maíloka 2017. 93% biblíufélaga svöruðu. Þar sem ekki var svarað var tekið meðaltal tveggja ára og það gefið upp sem heildarfjöldi ársins 2016.

Fjölgun rafrænna Biblía

Dreifing rafrænna Biblía á borð við stafrænar niðurhleðslur, geisladiska og mynddiska með ritningartextum hefur ríflega tvöfaldast á heimsvísu árið 2016, vegna vaxandi spurnar eftir Biblíunni í símana okkar og aðra stafræna miðla.

Rösklega þremur milljónum rafrænna Biblía var dreift árið 2016, samanborið við tæpar 1,3 milljónir árið 2015 og rétt tæplega 200.000 eintök árið 2010.
Þessi stefna endurspeglar vaxandi netnotkun á heimsvísu. Um það bil 45% jarðarbúa geta gengið að netinu og árið 2020 verður gert ráð fyrir því að 7 af hverjum 10 manneskjum eigi snjallsíma. Við eyðum meiri tíma í símanum en nokkru öðru tæki.

Flestum rafrænum Biblíum er dreift til Brasilíu, þar sem biblíuapp Sameinuðu biblíufélaganna var kynnt til sögunnar í ágúst 2015. Hægt var að fá rúmlega 1,5 milljónir Biblía  í gegnum það. Nú er þetta app notað í rösklega 30 biblíufélögum víðs vegar um heiminn. Það býður upp á ókeypis biblíuþýðingar til niðurhleðslu og hægt er að kaupa ítarefni á borð við kennsluefni um Biblíuna.

Stafræna biblíubókasafnið býður nú upp á Biblíuna á 1.134 tungumálum, sem gefur rösklega fimm milljörðum jarðarbúa kost á því að hlýða á boðskap Biblíunnar. Sameinuðu biblíufélögin hafa séð bókasafninu fyrir rúmlega 80% þeirra Biblía, sem það geymir.

Að sögn Nelsons Saba, hugmyndasmiðs stafrænnar útgáfu Sameinuðu biblíufélaganna, gengur Sameinuðu biblíufélögunum einstaklega vel að prenta Biblíur, en nú eru þau einnig að hleypa af stokkunum stafrænu biblíutrúboði.

Ein milljón rafrænna Biblía handa Írönum

Hið íranska biblíufélag, sem sér kristnum Írönum víðs vegar um heim fyrir Heilagri ritningu á persnesku, hefur séð til þess, að Orð Guðs nær nú til 1,5 milljóna manna árið 2016.

Félagið, sem stofnað var árið 2014 eftir að skrifstofum Hins íranska biblíufélags var lokað árið 1990, dreifði einni milljón rafrænna Biblía og hálfri milljón rafrænna Nýja testamenta, auk þess sem það flutti út 7.500 Biblíur og 9.400 Nýja testamenti á síðasta ári. Það er tvöfalt meira en dreift var árið 2015.
Nahid Sepehrifard, sem fer fyrir hópnum, sagði að ein milljón Biblía væri afar íhaldssamt mat. Raunveruleikinn hefði miklu meiri áhrif, þar sem fjölbreytilegir miðlar væru í notkun — gervihnattasjónvarp, útvarp, netið. örflögukort og netmiðlar, sem dreifðu efni í tali og tónum með stafrænum hætti í ýmsum myndum og forsniðum.

Dreifingin gengur í bylgjum

Í Bangladess, þar sem níu af hverjum tíu íbúum eru múslimar, hefur teymið frá Biblíufélaginu dreift rösklega átta sinnum fleiri Nýja testamentum en árið þar á undan. Samtals hefur það útvegað 105.081 Nýja testamenti í gegnum lestrarhópa, dreifingu til trúaðs fólks í sveitum og frumkvæði teymisins til þess að ná til mæðra og fjölskyldna. Talsmaður þess sagði, að vegna þessara rita hefði líf margra umbreyst og margt fólk hefði tekið á móti Kristi. Kirkjusókn hefði aukist, börnin byggju að góðum, andlegum grunni og fjölskylduböndin hefðu styrkst.

Hið palestínska biblíufélag dreifði fimm sinnum fleiri Nýja testamentum árið 2016 en árið 2015. Þetta átti sér stað í skugga grimmilegra átaka á milli Íraka og Palestínumanna á því ári, sem jók spennu og róstursemi á svæðinu.

Þetta var einnig sögulegt ár fyrir Kúbu, þegar fyrrverandi leiðtogi þar í landi, Fidel Castro, lést. Þá kom þáverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, í heimsókn. Biblíudreifing snarjókst. Fjöldi Biblía og ritningartexta sem Kúbverska biblíunefndin gat nú gengið að ríflega tvöfaldaðist, þar sem rösklega 350.000 eintök af Biblíunni bárust til landsins. Dreifingarátakið var hluti af herferðinni „Milljón Biblíur til Kúbu“, sem hleypt var af stokkunum árið 2013 og verður í gangi út árið 2018.

Samhliða þessu mátti einnig sjá greinilega aukningu í biblíudreifingu í Þýskalandi, þar sem landsmönnum var séð fyrir rúmlega tvöfalt fleiri Biblíum árið 2016 en árið þar á undan — og í Bandaríkjunum, þar sem dreifing Nýja testamenta stórjókst. John Greco, aðgerðastjóri Hins bandaríska biblíufélags, sagði langtímamarkmið félagsins vera að 100 milljónir manna í Bandaríkjunum yrðu virkir lesendur Orðs Guðs  árið 2026, og stefnt yrði að því að Biblíur, Nýja testamenti og  gögn þeim tengd næðu til stærri borga.

…eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum, það hverfur ekki aftur við svo búið, heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því. (Jes 55.11).

Efstu fimm löndin á lista yfir dreifingu á Biblíunni á heimaslóðum árið 2016

1.Brasilía – 6.773.421
2.Kína – 3.514.286
3.Bandaríkin – 2.981.407
4.Nígería – 1.965.001
5.Indland – 1.897.995

Áfangi fyrir Brasilíu

Við árslok 2016 náði Hið brasilíska biblíufélag þeim áfanga að frá árinu 1995 höfðu 150 milljónir Biblía og Nýja testamenta verið prentuð. Þetta er eitt mesta upplag í heiminum, einkum á sviði biblíutexta. Framkvæmdastjóri félagsins, Rudi Zimmer, sagði að á undanförnum áratugum hefði Brasilía tekið ríkari þátt í að dreifa orðinu en nokkru sinni fyrr og gert landið að stærsta akri dreifingar á Heilagri ritningu á heimsvísu um þessar mundir.

Breytingar í aðsigi í Afríku

Dreifing Nýja testamenta í Afríku jókst um tæpan þriðjung á milli áranna 2015 og 2016 og dreifing biblíusmárita af ýmsum toga jókst ennfremur á sama tíma.

Samt sem áður hefur færri Biblíum verið dreift um heimsálfuna þriðja árið í röð. Árið 2013 var 15,6 milljónum rita dreift, þar af 6,7 milljónum Biblía. En undanfarin þrjú ár hefur dreifing Biblíunnar í Afríku dregist saman um 42%, Árið 2016 var rétt rúmlega níu milljónum útdeilt.

Afrísku biblíufélögin halda áfram að dreifa hlutfallslega flestum Biblíum á heimsvísu. Árið 2016 voru þrjú af hverjum fjórum biblíuritum sem stóðu Afríkubúum til boða Biblían í heild. Til samanburðar voru aðeins 7% rita sem dreift var á hinum þremur svæðunum Biblíur í heild sinni.

Íslenska biblíufélagið tekur þátt í starfi Sameinuðu biblíufélaganna.