Þrír prestar hafa unnið saman að því að skrifa Biblíuhálfmaraþon. Hér sjást frá vinstri Allan Ibsen, Lasse Åbom og Ole Lundegaard.

Hvernig býr maður sig undir lestur Biblíunnar? Í bókinni Hálfmaraþon, sem nýlega kom út á vegum bókaforlags Biblíufélagsins, hafa þrír prestar unnið saman að tillögu að því, hvernig það er hægt. Og markmiðið er meðal annars að gera okkur færari í að tala um Biblíuna.

Það sem að baki bjó

Prestarnir, Allan Ibsen, Lasse Åbom og Ole Lundegaard, fengu þessa flugu í höfuðið við eigin reynslu þeirra í heimasöfnuðum sínum í Tølløse, Herlev og Árósum.

„Við tókum oft mismunandi biblíusögur með í prédikanir okkar, og það kom fyrir að við reyndum það á eigin skinni að það væru margar eyður þegar við vísuðum í vissar frásagnir,“ segja þeir.

Það hvatti þá til þess að búa til leiðsagnarrit — ekki aðeins um texta Biblíunnar, heldur einnig um það hvernig nota mætti textana í daglegu lífi.

Hálfmaraþon

Til þess að lesendurnir gæfust ekki upp á miðri leið í því gríðarlega textaflæmi, sem Biblían er, hafa prestarnir þrír kosið að með því að lesa Biblíuhálfmaraþon sé hægt að komast í gegnum allt Nýja testamentið og hluta af Gamla testamentinu:

„Við vildum fremur að fleiri læsu helminginn en að færri læsu allt saman.“

Í Biblíuhálfmaraþon gefst fólki kostur á að kynna sér mismunandi gerðir texta, sem Biblían hefur að geyma. Lesnir eru útvaldir textar úr Gamla testamentinu. Til þess að forðast of margar endurtekningar, á borð við kafla sem prestarnir þrír hafa talið hafa síðra vægi, hafa þeir kaflar verið skornir burt. Þar að auki er Biblíuhálfmaraþon ekki eingöngu „lestrarleiðsögn“, heldur kemur hún fram með tillögur um heimfærslu þess sem lesið er:

„Það sem er svo áhugavert er ekki bara það sem textarnir segja, heldur hvernig þeir ögra okkur. Með Biblíuhálfmaraþoni viljum við gefa einstaklingnum kost á því að verða slyngari og finna samsvörun í Biblíunni, en samtímis því að skapa umræðugrundvöll manna á milli um það sem lesið er um,“ segja prestarnir þrír.

Biblían og lífið

Í Biblíuhálfmaraþoni lýkur sérhverjum kafla með klausu, þar sem lesendur eru hvattir til þess að heimfæra það sem lesið hefur verið upp á raunverulegt líf sitt. Og markmiðið með öllu þessu verki sem að baki Biblíuhálfmaraþons býr, er einmitt samtalið og hitt, hvernig lesandinn tileinkar sér textana.

„Við vonum að með Biblíumaraþoni verði hægt að líta á Biblíuna í nýju ljósi og gera okkur öll færari í að tala saman um það, sem í henni er að finna,“ benda Allan Ibsen, Ole Lundegaard og Lssse Åbom og halda áfram:

„Þess vegna vonum við, að margir muni lesa Biblíuhálfmaraþon saman, mynda stóra eða litla leshringi eða búa til fésbókarsíðu, þar sem menn geta deilt hugsunum sínum og hughrifum.“

Ekki kynning

Prestunum þremur er einnig í mun að fram komi, að bókin Biblíuhálfmaraþon er ekki hugsuð sem kynning á Biblíunni, jafnvel þótt einnig megi nota hana sem slíka:

„Við höfum ekki einungis hugsað okkur að búa til kynningu á Biblíunni, og alls ekki að koma fram með svör á færibandi. Við höfum hugsað okkur að hjálpa lesendum að finna þær spurningar, sem vekja áhuga og gera þeim kleift að glíma við spurningarnar saman.“