Þegar Maria Helleberg var átta ára að aldri fletti hún í fyrsta skiptið upp í Biblíunni. Hún fékk það heiðurshlutverk að lesa upphafs- og lokabæn í guðsþjónustu í sinni kirkju. Hún  fann sterka löngun til að kynnast þessari merkilegu bók.

„Þá rann það upp fyrir mér, hversu margar frábærar sögur Biblían hafði að geyma. Þarna voru eldvagnar, þarna var lamaður maður sem gat gengið og látnir sem lifnuðu við,“ segir hin 61 árs gamla Maria Helleberg með ákafa, sem fær litskrúðugt beltið við dökka kjólinn til að glitra.

„Síðan hef ég til allrar hamingju ekki getað sleppt takinu á Biblíunni, því að hún er undirstaða allra frásagna, sem búnar eru til. Sérstaklega er Jóhannesarguðspjall  afskaplega vel skrifað. Ég varð í alvöru ástfangin af því, þegar ég sjálf byrjaði að skrifa.“

Biblían er líka undirstaða nýju sögulegu skáldsögunnar hennar Mariu Helleberg, Stormene (Stormarnir), sem kom út á vegum bókaforlags Biblíufélagsins í Danmörku þann 1. júní síðastliðinn.

Í bókinni fylgjast lesendurnir meðal annars með karmelítamunkinum Andreasi, sem lendir í sömu heillandi upplifuninni og rithöfundurinn þegar hann flettir upp í fyrstu, dönsku biblíuþýðingunni árið 1526. Hér uppgötvar hann meðal annars að Guð fyrirgefur, að hreinsunareldurinn er ekki til og að frelsunin finnst í trúnni fremur en í verkunum.

Skáldsagan er síðasta verk Mariu Helleberg sem rithöfundar, en verk hennar eru rúmlega 80 talsins. Og vinnan við bókina, sem hefur tekið undanfarin þrjú ár, hefur verið „algjörlega stórkostleg,“ að hennar sögn.

„Þetta er það skemmtilegasta, sem ég hef nokkurn tímann gert, því að þessar persónur í innsta eðli sínu hugsa og tala alveg eins og við“ segir hún.

Mætt af guðdómlegum vinarhug

Sem ung stúlka á áttunda áratugnum var Maria Helleberg áreiðanlega þeirrar skoðunar um nokkurra ára skeið, að ekkert vald eða afl væri til nokkurs gagns. En reynslan kenndi henni annað.

Hún segir meðal annars frá tímabili, þar sem hún átti ofbeldisfullan nágranna, sem ógnaði lífi hennar. En eftir nokkra mánuði tókst henni að finna annan samastað, og á sama tíma tókst nágrannanum að snúa frá villu síns vegar. Eftir þann atburð fann hún fyrir þakklæti í garð æðri máttarvalda.

„En trú mín hefur eiginlega ekki verið andlegt öryggisnet á krepputímum. Hún leggur mér frekar lið, þegar vel gengur, og hún veitir mér forskot til þess að takast á við raunir. Ég finn að ég get valið mildi, hjálp, góð ráð og styrk Guðs. Þegar við gerum hið rétta, snertum við streng í brjósti guðdómsins,“ segir hún.

Á vissum tímabilum reynir Maria Helleberg sjálf að leggja sitt af mörkum aukalega til þess að mæta heiminum með opnum huga,  skilningi og gjafmildi, og þá finnur hún að það gefur henni talsvert í aðra hönd — það kallar ósköp einfaldlega fram guðdómlegan vinarhug, að hennar mati.

„Við vitum öll hvernig það virkar, þegar við hættum að vera sjálfhverf og hugum að því, hvernig við getum gert gott úr þessum aðstæðum. Með þeim hætti getur maður lagt öðrum lið, eins og maður hefur sjálfur séð gerast. Ég lít svo á að það hreyfi ögn við hinu guðdómlega, og slíkum ljósgeislum eigum við að safna,“ segir hún.

Þeirri spurningu, hvort hægt sé að kalla fram slíkan, guðlegan vinarhug, getur hún ekki svarað. Hún notar fyrst og fremst bænina sem læknismeðferð til þess að ná fram einbeitingu þegar tekist er á við streitu og óróleika, og til þess að auðsýna þakklæti.

Tekur allan kristniboðspakkann

Allt sitt líf hefur Maria Helleberg sótt kirkju — til þess að heyra góða prédikun eða bara vera þar sem hún finnur fyrir næði. Og hún telur að með vissu millibili sé manneskjunni hollt að krjúpa niður á kaldar flísar af auðmýkt. Þegar hún ferðast, heimsækir hún venjulega kirkjur staðarins og tekur þátt í guðsþjónustu — hvort sem um er að ræða rétttrúnaðarkirkju, rómversk-kaþólska kirkju eða mótmælendakirkju.

„Mér finnst eitt stærsta vandamálið í dag vera á þá leið, að margir reyna að búa til sína eigin viðteknu útgáfu af kristindómnum. Fyrir mig hefur lausnin falist í því að segjast taka allt með í reikninginn. Ég þarf ekki að vera minn eigin litli Lúther. Og hvorki á að gera lítið úr trú minni né skilgreina hana um of. Ég finn á eigin skinni að það sem hefur virkað fyrir fólk í 2000 ár, virkar fyrir mig.“