Eftirfarandi Davíðssálmur er einn af mínum uppáhaldsritningartextum í Biblíunni. Þessi sálmur er einn þekktasti texti Biblíunnar og hefur oft verið nefndur ,,perla trúarlegs kveðskapar“ .  Sálmurinn er persónuleg trúarjátning þar sem myndmálið lýsir einstöku sambandi á milli manneskjunnar og Guðs. Traustið til Guðs, sem er alltaf nálægur á öllum stundum lífs okkar. Framsetning sálmsins er ákaflega persónuleg og þess vegna talar sálmurinn svo sterkt til mín. Trúarreynslan, trúarfullvissan og traustið á nærveru Guðs í öllum kringumstæðum lífsins er svo áþreifanleg í sálminum og gefur þess vegna svo mikla huggun. Guð mætir þörfum manneskjunnar, hann gefur okkur af nærveru sinni, verndar og veitir okkur öryggi. Ferðalagið er vegferð okkar í gegnum lífið og viljinn að fá að hvíla í faðmi Drottins alla ævi, í húsi hans, í því skjóli og í því athvarfi sem þar er, verður bæn mín til Guðs. Sálmurinn sýnir mér þau andlegu gæði sem ég á þegar ég á trú á Guð. Þann innri frið sem Guð gefur mér í lífinu og þess vegna þykir mér ákaflega vænt um þennan sálm. Ég hef notað þennan sálm mikið í mínu starfi í gegnum tíðina í Sóltúni því margir þekkja þennan sálm og hann gefur fólki huggun og von.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Jón Jóhannsson, djákni og framkvæmdastjóri JJ verktaka