Biblíusögur innihalda 29 frásögur úr Gamla testamentinu og Nýja testamentinu, en þær eru endursagðar af Idu Jessen og myndskreyttar af Hanne Bartholin. Biblíusögur fengu einstaklega góða ritdóma í fjölmiðlum, þegar þær komu út, og í Berlingske Tidende var tekið svo til orða, að í Biblíusögum væri að finna „gylltan lykil að alheimi Biblíunnar“.

Framkvæmdastjóri Hins danska biblíufélags, Sverri Hammer, rökstyður meðal annars valið á Idu Jessen og Hanne Bartholin, sem verðlaunahöfum ársins, þannig:

„Með Biblíusögum hafa Ida Jessen og Hanne Bartholin búið til nútímalega endursögn af bestu sögu heimsins. Það er gríðarmikið verkefni, bæði fyrir myndlistarmann og rithöfund, að hefjast handa við svo umfangsmikið verk sem endursagnir á Biblíunni handa börnum. Í það minnsta hefur Idu Jessen og Hanne Bartholin tekist að skapa eitthvað alveg sérstakt með nýjum og spennandi sjónarhornum á þekktum sögum. Með orðum og myndum ögra þær lesendum sínum, jafnt stórum sem smáum. Persónur Biblíunnar lifna við í þeim mæli, að maður ýmist fær hroll, grætur, en síðast en ekki síst hlær með þeim.“

Ida Jessen er fædd árið 1964 og hefur skrifað fjöldann allan af skáldsögum sem hlotið hafa lof gagnrýnenda, nú síðast En ny tid (Nýr tími) og Dr. Bagges anatomer (Krufningar dr. Bagges) Hún hefur meðal annars hlotið Gyllta lárberið. Fyrr í vor kom út TAK — Salmernes bog på nudansk (Þökk — Sálmarnir á nútímadönsku), ný þýðing Davíðssálmanna úr Gamla testamentinu, sem Ida Jessen á meðal annars heiðurinn að.

Hanne Bartholin er fædd árið 1962 og er menntuð sem myndlistarmaður  og grafískur hönnuður.  Hún hefur meðal annars hlotið myndlistarverðlaun menningarráðuneytisins fyrir myndabókina Finn Herman og er þekkt fyrir framúrskarandi myndskreytingar í barnabókum.

Ida Jessen og Hanne Bartholin hafa einnig í sameiningu samið hinn vinsæla barnabókaflokk um fílsungann Karl.

Allt frá árinu 2005 hefur Hið danska Biblíufélag árlega veitt verðlaun manneskju, sem á sérstakan hátt hefur skarað fram úr við að gera Biblíuna nærtækari fyrir samfélagið. Verðlaunin samanstanda af 150.000 íslenskum krónum (10.000 DKR) og innrömmuð, upprunaleg blaðsíða úr Biblíu Kristjáns III. frá árinu 1550. Áður hafa verðlaunin meðal annars verið veitt Bjarne Reuter, Anne Lise Marstrand Jørgensen  og Sigurd Barrett.

Verðlaun Hins danska biblíufélags eru fjármögnuð af tekjum af sölu og útgáfu Bókaforlags Hins danska biblíufélags.
sjá frétt á http://www.bibelselskabet.dk/nyheder/nyhedsoversigt/arkiv2017/bibelselskabets_pris