Saudamini mun aldrei gleyma óttanum og sársaukanum er hún horfði á reiðan múg berja föður hennar miskunnarlaust, aðeins vegna þess að hann prédikaði fagnaðarerindið í litla þorpinu þeirra á Indlandi. Hann lamaðist og síðar lést hann af sárum sínum.

Saudamini og fjölskylda hennar héldu fast í þá trú sem faðir hennar innrætti þeim. En umfram allt annað vildi Saudamini fá Orð Guðs á sínu eigin tungumáli svo að hún gæti sjálf lært meira um Guð.

Á Indlandi, þar sem býr rösklega 3,1 milljarður manna, er kristið fólk eins og Saudamini í minnihluta. Gert er gys að sumu fólki og það er ofsótt fyrir trú sína. Og sárt er til þess að vita, að margir bíða enn eftir stafkrók úr Ritningunni á því tungumáli, er stendur hjarta þeirra næst.

Saudamini segir frá því þegar hún stálpaðist: „Ég safnaði peningum í rúmt ár til þess að kaupa mér Biblíu. En Biblían var aldrei til á móðurmáli mínu.“ Loks keypti hún Biblíu á tungumáli sem hún gat skilið, en það var ekki alveg það sama. „Hún var mér hjartfólgin, jafnvel þótt ég skildi ekki allt sem þar var skrifað,“ segir Saudamini.

Loks, þegar hún var orðin fullorðin, fékk hún Matteusarguðspjall á sínu eigin tungumáli! „Það var áfall,“ segir Saudamini. „Í fyrsta skiptið leið mér eins og Guð talaði meira að segja tungumálið mitt. Núna sér fólkið ljósið!“

Fyrsta hugsun Saudamini var á þá leið að segja fólki á æskuslóðum sínum frá Orði Guðs, einmitt því fólki sem splundraði fjölskyldunni og barði föður hennar. Og það gerði hún. Saudamini sneri aftur til gamla þorpsins síns með 5.000 eintök af Matteusarguðspjalli á tungumáli síns fólks.

„Ég varði rúmri viku í að leita að börnum þeirra sem börðu föður minn svo ég gæti gefið þeim eintak af Matteusarguðspjalli á tungumáli sem þau gætu skilið,“ segir hún. „Ég gaf öllum börnunum þeirra Ritninguna og gaf sérhverju heimili í þorpinu eitt eintak, þorpunum í kring og skólunum. Það var eins og stundin, sem ég hafði beðið eftir í heila eilífð, hefði loksins runnið upp.“

Sjá frétt frá ameríska biblíufélaginu sem styður við þýðingarverkefni á Indlandihttp://news.americanbible.org/article/woman-shares-gospel-of-matthew-with-persecutors-in-india