„Hvar finnur maður fegurri orð í gleði og dýpri orð í sorg en í Davíðssálmunum?“ Þannig spurði Lúther svo lystilega, og enn sem fyrr má finna í Davíðssálmunum ríka uppsprettu hinna miklu tilfinninga.  Birgitte Stoklund Larsen framkvæmdastjóri danska biblíufélagsins skrifar um Davíðssálmana, þýðinguna og Lúthersárið.

„Ég er beygður og mjög bugaður, eigra um harmandi daginn langan. Brunasviði er í lendum mér og ekkert er heilbrigt í líkama mínum. Ég er lémagna og sundurkraminn, styn í hjartans angist.“ Sálm.38.7-9

Þannig hljóða nokkur vers úr 38. Davíðssálmi samkvæmt biblíuþýðingunni frá 2007. Hið danska biblíufélag gefur Davíðssálmana út í nýrri danskri þýðingu í apríl. Davíðssálmarnir eru á meðal dáðustu rita Biblíunnar.

Davíðssálmarnir öðlast líf við notkun. Þeir eru meginuppistaða þeirra tíðabæna sem farið er með í rómversk-kaþólskum klaustrum. Þeir voru þýddir og færðir í sálmabúning á sextándu öld og á 19. öld endurorti Grundvig fjöldann allan af Davíðssálmum Gamla testamentisins og þannig urðu þeir hluti af sálmafjársjóði Dana. Eins orti sr. Valdimar Briem sálma út frá öllum Davíðssálmunum við lok 19. aldar. Margir kunna að hafa heyrt brot úr sálmi við útför og  aðrir finna fyrir persónulegri uppbyggingu í Davíðssálmunum.

Kjörsviðsritgerð Sigrid la Cour Sonne í guðfræði hefur nýlega dregið fram í dagsljósið, hvernig nígerískar vændiskonur á Vesturbrú nota Davíðssálmana sem persónulega bænabók:

„Þegar ég les 23. Davíðssálm veit ég að allt mun fara vel,“ segir ein kvennanna. „Ég veit að ég á að vera sterk, hvað sem neyð og erfiðleikum líður og þeim freistingum, sem ég stend frammi fyrir. Ég veit að Guð sér mig. Og ég veit, að dag nokkurn mun öllu þessu ljúka.“

Þessi nígeríska kona er ein þeirra fjöldamörgu kvenna og karla, sem kynslóðum saman hefur getað séð sjálf sig í  skelfilegu umkomuleysi og erfiðleikum,  í hræðilegri höfnunartilfinningu, en einnig í fyllsta trausti. Sá sem les eða heyrir, fær orð í kreppu og kjarkleysi og getur tekið til sín næringu úr þeirri von um breytingu, sem skín í gegnum fjölmarga Davíðssálma.

Þegar Marteinn Lúther spyr svo lystilega, hvar finna má fegurri orð í gleði og dýpri orð í sorg en einmitt í Davíðssálmunum, þá skýrir hann það að nokkru leyti með því hversu vel þeir hafa enst. Lúther áleit meðal annars, að Davíðssálmarnir hefðu að geyma alla Biblíuna og væru lítil Biblía í sjálfum sér; hér væri ekki fjallað um menn og Guð, hér talaði maðurinn sjálfur við Guð af dýpstu hjartarótum. Hér sá Guð og heyrði manninn gráta.

Davíðssálmarnir verða nú gefnir út í nýrri þýðingu á nútímadönsku í tilefni siðbótarársins. Sálmarnir eru þeir sömu, en vonandi fær uppfært málfar þeirra ennþá fleiri til þess að gefa sig að Davíðssálmunum og taka þá til sín.

Sjá nánar frétt á http://www.bibelselskabet.dk/nyheder/nyhedsoversigt/arkiv2017/bibel_i_bibelen