Cai Frimodt-Møller, fyrrum stjórnarformaður Hins danska biblíufélags, er í dag talsmaður þess, að fólk geti arfleitt Biblíufélagið að eigum sínum og vill gjarnan vekja athygli á því.

Hugsunin um dauðann er yfirlækninum og fyrrum stjórnarformanni Hins danska biblíufélags, Cai Frimodt-Møller ekki framandi.  Hann telur það mikilvægt að maður fái að ráða, allt frá sálmavali til erfðaskrár á meðan heilsan er enn góð. Og einmitt hér leikur ævilöng samfylgd hans við Biblíuna lykilhlutverk.

Á CFR-sjúkrahúsinu í Hellerup hefur hinn 78 ára gamli yfirlæknir, Cai Frimodt-Møller, fylgst með sjúklingum sínum árum saman. Og hann situr hjá þeim, þegar langvinnur sjúkdómur ágerist og endalokin nálgast. Hann spyr sjúklinga oft að því, hvað þeir geta fengið út úr þeim tíma, sem þeir eiga ólifaðan, hvað varðar sársauka og andlegt heilbrigði. Og Cai Frimodt Møller gefur sér einnig tíma til þess að tala við þá um kveðjustund þeirra úr þessum heimi. Hvaða sálmar vilja þeir að verði sungnir? Vilja þeir láta jarðsetja sig eða verða brenndir? Og hafa þeir velt erfðaskrá sinni fyrir sér?

„Ég hitti sjúklinga, sem sjá eftir því því að hafa ekki tekið afstöðu til svo erfiðra mála, á meðan þeir héldu enn heilsu. Á grundvelli þeirrar reynslu legg ég til, að ekki verði beðið of lengi með það,“ segir hann og heldur áfram:

„Sumir eiga fjölskyldu og vita nú þegar, að allur arfur færist til barnanna. Aðrir eiga engan að, og þá getur skipt svo miklu máli að ánafna eigur sínar einhverri stofnun.  Það er hægt að hugsa til allra góðra minninga sem hver og einn á úr lífi sínu og vill gjarnan geyma. Ef til vill hefur einhver náð langt í ákveðinni kirkju, ef til vill er einhver háskólagenginn. Og ef einhver hefur verið í nánum tengslum við Biblíuna, þá væri Biblíufélagið sterkur leikur.  Það hefði svo gríðarmikla þýðingu, ef  hægt væri að leggja fram einhvern skerf. Ég veit auðvitað ekki, hvað sjúklingurinn gerir á endanum, það kemur mér ekki við,“ segir hann.

Cai Frimodt Møller mælir einnig með því að sjúklingurinn greini nánustu aðstandendum sínum frá slíkum ákvörðunum. Það hefur hann sjálfur gert. Cai Frimodt Møller er kvæntur Helgu, hann er fjögurra barna faðir og á átta barnabörn.

„Fyrst og fremst vil ég hjálpa mínum eigin börnum, en ég vil einnig huga að Biblíufélaginu í erfðaskrá minni og það vita börnin mín,“ segir hann.

Þrátt fyrir að Cai Frimodt Møller sé enn fullur starfsorku, hefur hann einnig valið útfararsálmana sína og þá biblíutexta, sem hann vill að presturinn tali út frá, þegar þar að kemur.

„Mér finnst, að um allt þetta þurfi að ræða við fjölskylduna,“ segir hann.

Cai Frimodt Møller mælir þessi orð umbúðalaust. Honum er það enginn vandi að ræða um ævilokin. Við vitum vissulega öll, að dag nokkurn mun hinsta stundin renna upp, eins og hann segir. Og hvenær sem er getur maður þurft að glíma við sjúkdóm eða lent í slysi.

„Ég hugsaði aldrei út í þetta, er ég var ungur maður, en nú er ég hniginn á efri ár, og þegar ég varð sjötugur, varð allt skyndilega mjög raunverulegt. Ég hygg, að margir bægi hugsuninni um dauðann frá sér, en það getur haft afleiðingar eftir þeirra dag. Ef einhver á eitthvað ósagt, er þess vegna mikilvægt að minnast þess, að sá dagur rennur upp, þegar við hverfum héðan úr heimi,“ segir hann.

Biblían veitir félagsskap

Þegar fólk ritar erfðaskrá sína og óskar eftir því að ánafna  öðrum en nánustu aðstaandendum eigur sínar, verða oft góðgerðastofnanir fyrir valinu. Fyrir Cai Frimodt-Møller var ósköp eðlilegt að ánafna Biblíufélaginu eigur sínar. Málefni Biblíunnar hafa alla tíð verið honum hugleikin.

Cai Frimodt-Møller ólst upp sem barn kristniboða á Indlandi, þar sem afi hans í föðurætt opnaði heilsuhæli fyrir berklasjúklinga, sem faðir hans rak síðan áfram.  Í danska skólanum á Indlandi var Biblían lesin af kostgæfni og sálmavers lærð utan bókar. Þarna fékk dæmisagan um talenturnar úr Matteusarguðspjalli sérstaklega mikið vægi fyrir hinn unga Cai, því að hún brýndi fyrir honum að nýta sér hæfileika sína.

„Í Biblíunni er okkur sagt, að við séum útbúin mismunandi hæfileikum — sumir hafa marga, aðrir fáa. En hvað sem því líður á maður að nýta sér þá. Og þar sem ég  notfærði mér mína eins vel og hugsast gat, þá gekk þetta nú,“ segir yfirlæknirinn.

Einmitt þennan texta, auk dæmisögunnar um miskunnsama Samverjann úr Lúkasarguðspjalli vill hann að presturinn lesi, þegar hann verður dag nokkurn borinn til grafar.

„Þar sem ég er læknir gagntekur dæmisagan um miskunnsama Samverjann mig: Ég á alltaf að hafa hugfast, að fyrir framan mig liggur nauðstaddur maður, sem ég get og ætla að hjálpa, en vil ekki bara ganga framhjá honum.“

Þegar Cai Frimodt-Møller var sendur heim til Danmerkur 14 ára gamall til þess að halda áfram námi sínu við Øregård-menntaskólann í Hellerup, fyrir norðan Kaupmannahöfn, fékk Biblían enn einu sinni sérstaka þýðingu fyrir hann. Hér bjó hann ekki lengur við það öryggi að hafa foreldra sína sér við hlið. En foreldrarnir höfðu gefið honum biblíulestraráætlun frá Indlandi, sem þeir fylgdu einnig. Þegar hann las í Biblíunni sinni, vissi hann að þeir lásu það sama.

„Þetta gaf tilfinningu fyrir samræmi. Þar að auki er að finna svo marga staði í Biblíunni, sem hægt er að heimfæra upp á eigið líf. Við getum öll fundið eitthvað, sem hreyfir við okkur,“ segir hann.

Einmitt þess vegna hefur Cai Frimodt-Møller stutt það starf dyggilega að fá Biblíuna þýdda og að henni verði dreift sem víðast, meðal annars í gegnum starf sitt í stjórn Biblíufélagsins. Þó svo að hann tali reiprennandi ensku, þykir honum það sérstakt að lesa Biblíuna á móðurmáli sínu, þar sem brýnt er að henni sé dreift til þjóðflokka, sem annars hefðu ekki efni á því. „Ef ekki væru til biblíufélög, væri auk þess heimurinn okkar fullur af vafasömum biblíuþýðingum,“ áréttar hann. Og loksins hafa biblíufélögin svo öflugt tengslanet, að hjálp getur borist til allra afkima heimsins.

Loks er Cai Frimodt-Møller orðinn talsmaður rómversk-kaþólsks flóttamanns frá Erítreu, sem fengið hefur hæli í Danmörku. Maðurinn hefur, líkt og þúsundir annars fólks, lagt á sig lífshættulegt ferðalag á flótta yfir Miðjarðarhafið og er kominn til Danmerkur, alveg eignalaus. Cai Frimodt-Møller hefur séð til þess að Biblíufélagið hefur fært manninum Biblíu á móðurmáli hans, tigrinya, og aðra á dönsku.

„Það var frábært að sjá þá gleði, sem þetta hafði í för með sér. Þetta er sama gleðin og þeir samstarfsmenn Biblíufélagsins, sem sendir eru út, upplifa, þegar þeir gefa ekki aðeins nauðstöddu fólki í fjarlægum heimshlutum að borða, heldur einnig orð Biblíunnar sem hugga sálina. Í því starfi hefur það úrslitaáhrif, að Biblíufélagið þiggur gjafir og framlög í formi erfðafjár,“ segir hann.

„Öll þessi ár, sem ég hef setið í stjórn, hef ég séð, hvílík auðæfi það voru fyrir okkur, þegar gjafafé barst. Margt smátt gerir eitt stórt. Það hefur hreint út sagt úrslitaáhrif fyrir tilvistargrundvöll Biblíufélagsins. Erfðafjárframlög eru auk þess ekki eyrnamerkt sem slík og þannig getur Biblíufélagið notað peningana einmitt þar sem þörfin er mest,“ segir hann.

Leggur fyrir handa Biblíufélaginu

Hann skilur það vel, að það getur reynst fólki erfitt að vekja máls á ferlinu og ræða við nánustu aðstandendur um það sem gerist, þegar maður kveður þennan heim.

„Hér heima er dauðinn ræddur opinskátt, og barnabörnin mín þekkja vel mismuninn á líkbrennslu og jarðsetningu. Ef barnabörnin spyrja, þá segjum við þeim að það sé líf eftir dauðann, þannig að við hittumst aftur. Og stundum getur eitthvert þeirra misst út úr sér: „En hvað þú ert gamall, afi, en þú kemur í það minnsta til fermingarinnar minnar, áður en þú deyrð.“ Við látum það liggja á milli hluta,“ segir hann.

Hann gleðst við þá tilhugsun, að þegar hann — vonandi að mörgum árum liðnum — kveður þennan heim, þá heldur hið mikilvæga biblíustarf áfram, meðal annars vegna hjálpar hans.

„Ég og margir aðrir erum styrktaraðilar Biblíufélagsins í dag. Ég tel það vera af hinu góða að styrkja félagið og ég vil gleðjast yfir því að það heldur áfram — einnig eftir minn dag. Ég er sannfærður um, að þeim arfi, sem ég skil eftir mig og sendi áfram, verið varið með besta, mögulega hætti. Í Biblíufélaginu er ekki tjaldað til einnar nætur. Peningar eiga að vinna, og einnig mínir.

Hægt er að styðja við starf Hins íslenska biblíufélags. Munum að margt smátt gerir eitt stórt.
Reikn. 0101-26-3555
kennit. 620169-7739