Um síðustu mánaðamót hélt Kanadíska biblíufélagið fyrstu ráðstefnuna sem haldin hefur verið um biblíuþýðingar á mál Inúíta.

Inúítar
Inúítar búa á óblíðu landsvæði norðurheimskautsins, á norðurströnd Norður-Ameríku, allt frá Alaska til Grænlands. Þótt þeir séu sögulega einn og sami  þjóðflokkur og málhópur eru nokkur aðskilin Inúítamál töluð á norðurheimskautssvæðinu nú til dags. Íbúar svæðisins hafa hafið þýðingar á Biblíunni á  móðurmálið.

Ráðstefna Kanadíska biblíufélagsins
Margir hópar Inúíta eru kristnir og blómlegt kirkjustarf er í nokkrum Inúítasamfélögum. Undanfarið hefur áhugi á að endurvekja menningu og mál frumbyggjanna aukist, og
innan kirkjunnar hefur orðið samsvarandi þrá eftir Ritningu sem talar inn í menningu þeirra og lifandi trúarsamfélag innfæddra.

Í takt við þennan áhuga á að varðveita mál frumbyggjanna og leggja rækt við biblíuþýðingar fyrir alla, stóð Kanadíska biblíufélagið fyrir ráðstefnu um síðustu mánaðamót í Toronto, en það var fyrsta ráðstefnan sem haldin hefur verið um biblíuþýðingar fyrir Inúíta.

Fulltrúar biblíuþýðingarverkefna í Alaska (Inupiaq), Kugluktuk (Nunavut), Iqaluit (Nunavut), Inuttut (Nunatsiavut), og Kalaallit (Grænlandi) sóttu ráðstefnuna, deildu sögum og sérfræðiþekkingu hver með öðrum. Kirkjuleiðtogar og aðrir kirkjunnar þjónar voru einnig viðstaddir til að hlusta og læra.

Biblíuþýðingar á 21. öld fela ekki einvörðungu í sér þekkingu á frummálum Biblíunnar, grísku, hebresku og arameísku, heldur einnig þekkingu og færni í hugbúnaðarlausnum ásamt agaðri verkefnastjórnun. Þær fela einnig í sér fjölbreyttan mannauð sem leggur til þekkingu sína. Einn samstarfsaðilanna, Faith Comes By Hearing, kynnti þær gríðarlegu tækniframfarir sem orðið hafa í upptökutækni og lagði áherslu á mikilvægi þess að nýta sér þær í málsamfélögum sem byggja að mestu leyti á töluðu máli.