Nýja testamentum og Biblíum dreift á meðal farandverkamanna
Farandverkemenn í Kúvæt búa við mjög erfiðar aðstæður og Arabíska Biblíufélagið lítur á það sem lykilþátt í þjónustu sinni að flytja kristnum farandverkamönnum huggun og leiðsögn úr Orði Guðs.
Nýlega tóku 60 farandverkamenn á móti Kristi og 10 voru skírðir. Arabíska Biblíufélagið hefur skýrt frá því að „stórkostlegur viðburður“ hafi átt sér stað á síðasta degi Ramadan, föstulokum, í kjallara í strandbænum Mahboula. Þetta var „gullið tækifæri“ til að safnast saman á þessum opinbera frídegi og verkamennirnir vildu ekki missa af samveru sem var skipulögð sérstaklega fyrir þá.
Rúmlega 450 manns komu til guðsþjónustu sem var skipulögð af kristnum söfnuði Tamila í Kúvæt í samstarfi við Arabíska Biblíufélagið. Fólk kom hvaðanæva að þess eins að lofa Drottin. Samkoman var einstakt tækifæri til lofgjörðar, tilbeiðslu og samfélags, fjarri erfiðisvinnu. 60 verkamenn tóku við Jesú Kristi sem Drottni sínum og frelsara og tíu tóku skírn þann dag.
Í lok kvöldsins var 325 Nýja testamentum á hinum ýmsu tungumálum, s.s. hindí, punjabi, malayalam, tamil og telugu, dreift til þátttakenda. Þakklæti þeirra og gleði var fölskvalaus og starfsmenn Biblíufélagsins eru þakklátir fyrir hve vel tókst til á þessari sérstöku samveru á degi þrátt fyrir að hitinn utandyra hafi farið upp í 52°C.
Að samverunni lokinni kom prestur safnaðarins, séra Babu til Yousefs og sagði: „Við erum Guði og Arabíska Biblíufélaginu innilega þakklát fyrir þennan andlega mikilvæga atburð. Takk fyrir Ritninguna sem þið gáfuð. Við erum þess ekki megnug að útvega söfnuðinum okkar og öllum þeim sem tekið hafa trú Biblíu á þeirra eigin tungumáli. Ég átti ekki von á fleiri en 300 þátttakendum, en það mættu 450. Dýrð sé Guði!“
Rajeef, aðstoðarprestur, var himinlifandi yfir því sem hann sá. „Þetta er sannarlega frábær dagur. Það er stórkostlegt að sjá fólk með mismunandi bakgrunn og tungumál koma til Krists. Boðskapurinn um mikilvægi Guðs Orðs var mörgum til blessunar. Þetta fátæka fólk er svo ánægt með þessa gjöf frá BSG. Biðjið fyrir okkur og þjónustu okkar til farandverkafólksins í Kúvæt, sem farið er illa með og þjáist af heimþrá. Guð blessi ykkur.“
Nokkrir verkamannanna fluttu vitnisburð sinn þetta kvöld:
„Áður en ég kom hingað í kvöld átti ég ekki trú á Guð. Ég kom einungis með vini mínum. En á meðan á lofgjörðinni og bænagjörðinni stóð fylltist hugur minn friði og hjarta mitt gleði. Á þeirri stundu ákvað ég að taka við Jesú Kristi sem frelsara mínum.“
„Ég kom á þessa samkomu – að því er ég hélt – til að trufla hina og vera með hávaða. En á samverunni gleymdi ég öllum illu hugsununum og fól Guði hjarta mitt.“
„Ég kom á samkomuna vegna hvatningar frá vini mínum. Áður en ég kom var ég hugsjúkur vegna vandamála í fjölskyldunni. En á bænastundinni upplifði ég kærleika Guðs og fórn hans fyrir mig. Ég ákvað að bjóða Jesú Kristi að vera frelsari minn.“
„Ég kom hingað sem venjulegur syndugur maður. Á meðan á samkomunni stóð fann ég að Jesús Kristur hefur fyrirgefið mér syndugt líferni mitt. Ég játaði Jesú sem frelsara minn, fól Guði hjarta mitt og tók skírn.“
Arabíska Biblíufélagið er trútt kristniboðsskipuninni og ákveðið í að nota hvert tækifæri til að breiða út fagnaðarerindið. Biðjið fyrir þeim sem tóku trú þennan dag svo þeir varðveitist í trú sinni og leiði aðra til Jesú Krists sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið.