Ástralska biblíufélagið fagnar 200 ára afmæli sínu á þessu ári. Félagið er elsta starfandi félag í Ástralíu. Það hefur alla tíð verið í nánum tengslum við forystu þjóðarinnar, þar á meðal ríkisstjóra, leiðtoga í viðskiptalífinu og presta sem hafa verið þátttakendur í starfi Biblíufélagsins og gert sér grein fyrir mikilvægi þess.
Markmið félagsins er það sama og í upphafi; að breiða út birtu og von og miðla þeim skilyrðislausa kærleika sem finnst í hinu lifandi Orði, Jesú Kristi, og hinu ritaða Orði, Biblíunni. Það vinnur að því að Biblían sé öllum aðgengileg og á viðráðanlegu verði.
Til þess að fylgja markmiðunum eftir tekur félagið þátt í margskonar verkefnum bæði í Ástralíu og á heimsvísu.
Félagið stendur að og styrkir biblíuþýðingar á mörgum tungumálum víðs vegar um heim og einnig á mál frumbyggja í heimalandinu. Sömuleiðis stendur það að útgáfu Biblíunnar, kynningarefnis og stuðningsrita. Þá sér félagið um dreifingu á Biblíunni og tengdum vörum bæði á prenti og með stafrænni tækni.
Félagið stendur fyrir margvíslegum verkefnum um allan heim og herferðum til að stuðla að lestri Biblíunnar, lestrarnámskeiðum á meðal frumbyggja, auk þess að leggja áherslu á efni sem hvetur ungt fólk til að lesa Biblíuna. Í löndum þar sem kristin áhrif fara þverrandi er nauðsynlegt að benda á fegurð, sannleika og gæsku Biblíunnar og hvetja fólk til að taka hana alvarlega. Þetta er gert með þátttöku í fjölmiðlum, háskólum og öðrum skólum og með áberandi hugveitum.
Ástralska biblíufélagið er hluti af Sameinuðu biblíufélögunum, UBS og á auk þess í víðtæku samstarfi við kirkjur og aðrar hreyfingar vegna útgáfu, lestrarkennslu og ungmennastarfs.
Félagið heldur upp á afmæli sitt sunnudaginn 5. mars í samstarfi við Hillsongs kirkjurnar í Ástralíu og viðburðinum verður streymt til kirkna um alla álfuna.
Hægt er að fylgjast með fréttum og lesa meira á síðu Ástralska biblíufélagsins https://bicentenary.biblesociety.org.au/