Um jól þarf að taka ýmsar ákvarðanir. Hverjir fá jólakort? Hvað á að gefa þessum og hinum í jólagjöf? Förum við í þetta og hitt jólaboðið?

Það er fullt af siðum og venjum í kringum jólin. Þetta er skemmtilegt, samofið minningum okkar allra frá liðnum jólum og vonum okkar um komandi jól. Stundum er samt erfitt að greina á milli þess hvað eru venjur í menningu okkar og svo kjarna þess hvað jólin eru.

Fólkið sem kom að fyrstu jólunum þurfti líka að taka ákvarðanir. Þetta var fólk eins og ég og þú með drauma og langanir, styrkleika, veikleika og áform um framtíðina.

Sakaría og kona hans Elísabet höfðu þráð lengi að eignast barn og voru þegar þetta gerðist bæði orðin gömul, svo gömul að þau voru búin að afskrifa að eignast erfingja. Þegar engilinn Gabríel flytur Sakaría þau skilaboð að Elísabet muni fæða son sem verður mikill í augliti Drottins (Lúk 1:15) þarf Sakaría að ákveða hvernig hann á að bregðast við og hann ákveður að trúa þessu ekki (Lúk 1:20).

María var ung stúlka þegar sami engill kemur til hennar hálfu ári seinna. Þetta lítur út fyrir að hafa verið annasamt ár hjá englinum Gabríel. María gerði sér örugglega ekki fulla grein fyrir því hvað hún var að fara út í en svarar samt: Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum (Lúk 1:38).

Jósef hafði framtíðaráform eins og allir ungir menn í giftingarhugleiðingum. Hann og María myndu byggja hús með áföstu litlu verkstæði til að hann gæti séð fyrir fjölskyldunni, eða eitthvað slíkt. Hvað yrði nú um þessi framtíðaráform ef María reyndist ganga með barn annars manns? Jósef tók þá ákvörðun að skilja við Maríu í kyrrþey (Mat 1:19). E.t.v. vildi hann ekki framtíð með konu sem hann gat ekki treyst til að halda heit sín. Þegar hann kemst að því að framtíðaráformum hans er stefnt í voða vill hann ganga í burtu frá öllu saman.

Sakarías, María, Jósef og fleiri þurftu að ákveða viðbrögð sín við því sem Guð var að gera þegar hann undirbjó og sendi svo Jesú inn í þennan heim sem gjöf til okkar allra á fyrstu jólunum.

Þegar öllu er á botninn hvolft og við horfum í gegnum allan jólapappírinn og glitkúlurnar þá er þetta ennþá kjarni jólanna: Hvernig bregst ég við því að Guð sendi Jesú inn í þennan heim?

Er ég búinn að afskrifa að þetta geti haft eitthvað með mig að gera eins og Sakaría? Trúi ég því e.t.v. ekki að fæðing Jesú sé söguleg staðreynd?

Er ég eins og Jósef sem vill labba í burtu frá öllu saman þegar hann kemst að því að hlutirnir eru ekki eins og hann hefur séð fyrir sér og skipulagt?

Eða er ég eins og María sem tekur við því hlutverki sem Guð réttir henni þó það þýði mikla breytingu fyrir hennar líf. Stórkostlegt hlutverk, en alls ekki auðvelt.

Núna um jól og áramót njótum við þess að staldra við, hitta fjölskyldu, vini og borða góðan mat. En gefum okkur líka tíma til að horfa á okkar eigið líf og hvernig við viljum bregðast við jólunum. Hver einasta gjöf sem við fáum þessi jól minnir okkur á það að Guð gaf okkur Jesú. Alveg eins og við þurfum að ákveða hvað við gerum við gjöfina frá Jóni bróður, Siggu systur eða mömmu og pabba þá þurfum við að ákveða hvað við ætlum að gera við Jesú. Ef kjarni jólanna er koma Jesú má spyrja: Viltu jól?

Ágúst Valgarð Ólafsson, fostöðumaður Hvítasunnukirkjunnar á Selfossi