Salt og hungang heitir nýútkomin bók eftir séra Petrína Mjöll Jóhannesdóttir sem prestur í Árbæjarkirkju í Reykjavík.  Í bókinni er að finna íhuganir út frá 366 versum úr Biblíunni, ein fyrir hvern dag ársins. Orðin eru ýmist sölt eða sæt og skilja eftir mismunandi eftirkeim hjá lesandanum. Finna má uppörvunar- og þakkarorð, huggunarvers, áminningar og sögur sem ætluð eru til eflingar og uppbyggingar í dagsins önn og amstri. Hér er fjallað um viðfangsefni daglegs lífs eins og kvíða, reiði, samskipti, tilgang, gleði, þakklæti, trú og efa, kærleika og ást.

En gefum Petrínu Mjöll orðið:

„Ég er prestur í Árbæjarkirkju í Reykjavík og hef starfað sem prestur frá árinu 2001. Ég vann áður á Fræðslusviði Biskupsstofu við fræðslumál. Ég hef haldið fjölda námskeiða og flutt fyrirlestra um kristna trú, gleðina, sjálfsstyrkingu kvenna og unglinga svo eitthvað sé nefnt.  Ég er gift, 4 barna móðir sem hef gaman að lesa, fræðast um lífið og iðka trúna. Trúin hefur verið mér dýrmætur fjársjóður frá unga aldri og mér finnst dásamlegt að fá tækifæri til að deila henni með öðrum“

En hvers vegna ákvað Petrína að skrifa þessa bók?

„Ég hef verið heilluð af Biblíunni frá því að ég uppgötvaði hana ung  á bernskuheimilinu. Hún var öðruvísi en allar aðrar bækur, leyndardómsfull og spennandi. Ég reyndi að lesa hana en gekk ekki mjög vel því að hún var ekki beint aðgengileg. Á unglingsárunum lærði ég að lesa hana á markvissari hátt og síðan þá hefur Biblían verið mér kærkomin bók sem ég les reglulega í, mér til uppbyggingar. Í guðfræðináminu opnaðist hún fyrir mér á algjörlega nýjan hátt sem gerði hana enn meiri spennandi í mínum augum. En í starfi mínu sem prestur hefur fólk svo oft sagt við mig að þeim finnist Biblían vera þeim sem lokuð bók, óaðgengileg og framandi. Svo mig langaði að skrifa bók út frá orðum Biblíunnar sem væri aðgengileg og fjallaði um daglegan veruleika. Vonandi vekur bókin með fólki áhuga á að lesa meira í Biblíunni og uppgötva hve mikla lífsspeki er að finna í henni“

Nánari upplýsingar http://kirkjuhusid.is/products/20811-salt-og-hunang