Hugleiðing af vettvangi, eftir Carine Toussaint, meðlim áfallahjálparteymis Sameinuðu biblíufélaganna.

Snemma árs 2016 naut ég þeirra forréttinda að fá að heimsækja sýrlenska flóttamenn í Mið-Austurlöndum. Á ferðalögum mínum hef ég hitt fjölda fólks sem flúð hefur ófriðinn í Sýrlandi til að reyna að tryggja sér öruggara líf í Írak, Líbanon eða Tyrklandi.
Þegar ég hlustaði á frásagnir fólksins, mæðra, feðra, sona og dætra sem þjáðst hefur vegna stríðsins, fylltist ég þakklæti til Guðs fyrir áfallahjálparþjónustuna sem við gátum nýverið hleypt af stokkunum í Mið-Austurlöndum. Með þeirri þjónustu tvinnum við saman Orð Guðs og bestu aðferðir geðheilbrigðisþjónustunnar. Við getum boðið þeim sem þjást af áfallastreitu tækifæri til að segja frá raunum sínum og þiggja lækningu við kross Krists.
Sorgin og sársaukinn sem maður verður vitni að meðal sýrlenskra flóttamanna er yfirþyrmandi. Það fékk ég að reyna frá fyrstu hendi á ferðum mínum. Andlit þessara sýrlensku bræðra minna og systra eru ennþá ljóslifandi fyrir mér þótt það séu nokkrir mánuðir frá því að ég sneri aftur til Bandaríkjanna.
Ég minnist Sayids, eldri manns sem flúði Sýrland ásamt syni sínum. Nú búa þeir í Tyrklandi, dreymir um að setjast að í Grikklandi, en hafa upplifað mikinn mótbyr. Fyrst borgaði Sayid manni fyrir að að flytja þá feðga til Grikklands. En þess í stað byrlaði maðurinn Sayid ólyfjan og stakk af með peningana hans. Sayid og sonur hans komust þá um borð í ferju sem stefndi á Grikkland, en voru handteknir af lögreglu og fluttir aftur til Tyrklands. Enn fóru þeir um borð í bát sem sigldi til Grikklands, en enduðu aftur við bryggju í Tyrklandi.
Ég minnist líka Söru, fimm barna sýrlenskrar móður. Á jóladag réðst hermaður ISIS inn í þropið hennar og hóf skothríð að nágrönnum hennar. Vígamaðurinn drap eiginmann hennar og skaut Söru í handlegginn. Hún flúði til Tyrklands þar sem þrjú barna hennar voru, en neyddist til að skilja tvö eldri börn sín eftir, en þau voru bæði gift og gátu ekki yfirgefið Sýrland.
Þrátt fyrir þessar dapurlegu sögur ber ég von í brjósti fyrir Sayid, Söru og aðra flóttamenn. Síðan við opnuðum áfallahjálparstöð í Afríku höfum við séð hvernig Orð Guðs og kraftur hefur margoft læknað niðurbrotið fólk. Ekkert er ómögulegt fyrir Guði – ekki einu sinni mitt í eyðileggingunni í Mið-Austurlöndum.
Þessir flóttamenn og frásagnir þeirra minntu mig líka á Krist, sem sjálfum var hafnað. Nokkrum sinnum var hann óvelkominn í heimabæ sinn og hafði ekki stað til að halla höfði sínu á.
Ég bið þess að hver einasti sýrlenski flóttamaður sem ég hitti muni þiggja þann styrk sem Jesús býður í gegnum upprisu sína. Ég bið þess að þeir finni frelsi frá þjáningum sínum með því að eignast hlutdeild í voninni sem ritningin færir okkur í boðskap sínum.
Vegna þátttöku ykkar og gjafa sé ég nú bænasvörin ljúkast upp fyrir augum mér. Orð Guðs færir nú þegar von inn í vonleysi Mið-Austurlanda. Þjáð fólk kemur og þiggur áfallahjálp, fullt sárskauka og hugarangurs, en fer reglulega í burtu eftir að hafa meðtekið frelsið sem það fann í Orði Guðs.
Mig langar að þakka ykkur persónulega fyrir að taka þátt í þessu verkefni. Ekki eingöngu með fjárhagslegum stuðningi heldur einnig í gegnum bænir ykkar. Biðjið Guð að blessa þessa þjónustu svo veikburða systkini okkar megi teyga innilega af lindum Orðs hans.

Stuðningur við starf UBS, Sameinuðu biblíufélögin

reikn. 0101-26-3555
kt. 620169-7739