Ó, Betlehem, þú bærinn kær,
með bjartra stjarna fjöld,
þér blessuð færast börnin nær,
sem bíða þín í kvöld.
Á drungans dimmum götum
þar Drottins ljómi skín
um stræti og torg öll streita og sorg
og stríðsógn gjörvöll dvín.

Og morgunstjörnur skulu skært
þar skína yfir grund,
Í  skrúða hreinan hef mig fært
á helgri þakkarstund.
Barn móðir fæðir mætust
í mjúkt hey leggur brátt,
og englaher út boðskap ber
um blessun, frið og sátt.

Þú, Kristur, son Guðs, kemur hljótt
og knýrð á dyr hjá mér,
mitt gistirými gef í nótt
ég glaður tek við þér.
Þú bróðurfaðm út breiðir
mót breyskri, hrelldri sál,
og veikum oss slíkt veitist hnoss
að vort fær ei tjáð mál.

Ó, barnið smátt frá Betlehem
þú birtist mér í kvöld
Með tilhlökkun ég til þín kem
þín tign er þúsundföld.
Þá sægur engla syngur
um sannan Guð og mann
um frið á storð og fögur orð,
ég fögnuð meðtek þann.

Þorgils Hlynur Þorbergsson,
ort 01. 12. 2016, þýtt úr norsku.