Kristið fólk var áður fyrr kallað fólkið á veginum, það fylgdi þeim vegi sem Kristur hafði lagt, en Jesús segir: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ Lífið á þessum vegi getur oft verið flókið því það að fylgja Kristi á ekki alltaf samleið með því sem á upp á pallborðið hverju sinni. En á vegi hans fáum við hjálp við erum leidd af anda hans, eigum samtal við hann í bæn og lesum í bókinni hans, Biblíunni. Hún hefur verið kristnu fólki stoð og stytta í hinum margvíslegu aðstæðum lífsins. Biblían er okkur á veginum sem áttaviti, hún hjálpar okkur að lifa vel og fallega og hún er ljósið sem vísar okkur áfram til ljóss heimsins, Jesú.

Biblían er eins og áttaviti því hún vísar okkur veginn í Davíðssálmum segir: „Þitt orð er lampi fóta minna, ljós á vegi mínum.“ Orð Guðs, Biblían, vísar okkur veginn í lífinu og leiðbeinir okkur þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum. Hún er ekki eins og „Bókin með svörin “. Biblían krefst þess að við íhugum orð hennar, að við leitum svaranna í bæn og í ljósi skynsemi okkar og lífsreynslu. Þannig hefur biblían verið mér áttaviti og ljós í flóknum aðstæðum lífsins. Bæði á stundum velgengi og ósigurs hef ég íhugað orð hennar í bæn, enduspeglað orð hennar í ljósi eigin reynslu og takmarkaðrar skynsemi minnar.

Biblían getur líka fengið okkur til þess að hugsa hlutina upp á nýtt. Þegar við íhugum orð hennar og endurspeglum líf okkar í ljósi hennar áttum við okkur á því að við höfum villst af leið. Orð Biblíunnar hafa aftur og aftur bent mér á þegar ég fyllist græðgi og legg allt mitt traust á eignir og það öryggi sem þær veita, eða þegar ég hunsa algjörlega neyð samferðafólks míns eða þegar ég fyllist sjálfsvorkunn og gleymi að þakka fyrir allt það góða sem ég hef. Þegar við íhugum orð Biblíunnar í bæn og speglum orð hennar í ljósi reynslu okkar og skynsemi þá nálgumst við þann sem Biblían öll vitnar um, frelsarann Jesú Krist, og hann umbreytir okkur.

Þegar ég var að nálgast tvítugt hafði ég ekki opnað Biblíuna frá fermingu. Ég upplifði á þeim tíma óróleika innra með mér, eins konar friðleysi. Ég opnaði þá fyrir tilviljum Biblíuna og las orð Jesú, sem segir: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ Biblían var þá ljósið sem vísaði mér veginn til Jesú og hann hefur gefið mér frið.

Sr. Jón Ómar Gunnarsson, Prestur í Glerárkirkju.