Monica og Per Lange hljóta verðlaunin fyrir rösklega 40 ára starf fyrir Biblíuna í gegnum söng og tónlist.
Biblíuverðlaunin 2016 voru veitt á biblíudögunum í Kristiansand, er 200 ára afmæli Hins norska biblíufélags var fagnað þar dagana 21. til 25. september.
Verðlaunahafarnir hafa í rúmlega 40 ár aukið hróður Biblíunnar í gegnum söng og tónlist á hverri hljómplötunni á fætur annarri og við óteljandi fundi og guðsþjónustur hafa þau sungið biblíutexta og söngva um Biblíuna, sagði framkvæmdastjóri Hins norska biblíufélags, Ingeborg Mongstad-Kvammen, við verðlaunaafhendinguna.
Einnig hafa margir komist í kynni við Biblíuna með söng þeirra í útvarpi og sjónvarpi. Í starfi sínu í aðventkirkjunni hafa Monica og Per de Lange borið boðskap Biblíunnar fagurt vitni með lífi sínu. Með biblíustarfi sínu í Suður-Noregi hafa þau lagt á sig gríðarmikla vinnu, bæði með samkomuhaldi kvöld eftir kvöld og í nefndastörfum í Agder og Þelamörk.
— Monica og Per de Lange: Framlag ykkar er einstakt þar sem þið hafið aukið hróður Biblíunnar með söng og tónlist, safnaðarstarfi og setu í nefndum Biblíufélagsins! Í dag viljum við heiðra ykkur fyrir starf ykkar, sagði Ingeborg Mongstad-Kvammen.
Aðalverkefni Biblíufélagsins er í því fólgið að greiða fyrir nýstárlegri notkun Biblíunnar á breiðum grundvelli innan kirkju og safnaðar, í skólum og á heimaslóðum, í menningarlífi og innan samfélagsins. Í þessu sambandi hefur Biblíufélagið stofnað til verðlaunaafhendinga. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1995. Með verðlaunaafhendingunni vill Biblíufélagið veita einum eða fleiri sem hafa lagt sitt af mörkum við útbreiðslu Biblíunnar og hvetja til nýrrar notkunar á henni, sérstaklega með myndir úr Biblíunni og sögur í huga, við tengsl kirkju og menningar eða kristins lífs og samfélags. Þannig eru verðlaunin veitt þeim sem þykja skara fram úr og hafa lagt sitt af mörkum til menningarinnar og samfélagsins í víðum skilningi, en einnig til miðlunar Biblíunnar í skólum og innan safnaða, á meðal barna og unglinga. Verðlaunin má veita þegar Biblíufélagið metur sem svo að verðlaunaþeginn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til verðlaunanna, en þó ekki oftar en einu sinni á ári.
Biblíuverðlaunin samanstanda af Ólafsbiblíu og innrömmuðu titilblaði Biblíu Kristjáns IV.
Á myndinni má sjá framkvæmdastjóra Hins norska Biblíufélags, Ingeborg Mongstad-Kvammen þegar húnafhenti Monicu og Per de Lange Biblíuverðlaunin 2016.