Danska Biblíufélagið mun á næstunni gefa út kennsluefni um þær plöntur sem fjallað er um í Biblíunni. Grasafræðingurinn og rithöfundurinn Hans Arne Jensen hefur tekið saman efnið um plönturnar og þýðingu þeirra. Efnið verður aðgengilegt frá 15. september á heimasíðu danska Biblíufélagsins.

Lífsins tré er ein þessara plantna, sem af gildum ástæðum er ekkert fræðiheiti til fyrir, en trénu er lýst í fyrstu Mósebók, kafla 2 og 3 um uppsprettu eilífs lífs.

„Getið er um nærri 100 plöntur í Biblíunni eða ávexti plantna. Þegar Jesús ræðir um sjálfan sig notar hann líkinguna um víntréð og segir „Ég er hinn sanni vínviður og þið eruð greinarnar“. Við vitum öll að líkingin er skýr, það að ef grein er skorin af víntré, visnar hún fljótt og deyr“.

Hans Arne Jensen hefur haft áhuga á að kynna sér þær plöntur sem fjallað er um í Biblíunni frá árinu 1969, en þá fékk hann sinnepsfræ frá Ísrael til skoðunar á vinnustofu sinni, en hann starfaði við náttúrufræðirannsóknir hjá danska ríkinu í fjörtíu ár. Eftir að hafa rannsakað fræið kom í ljós að það var sama tegund sinnepsfræs og Jesús vísaði til og sagt er frá í Nýja testamentinu. Honum fannst viðfangsefnið svo spennandi að hann tók sig til og las Biblíuna og merkti við alla þá staði þar sem minnst er á plöntur. Það tók hann um eitt ár og gaf hann síðan út bók um efnið árið 1974.

Það efni sem birtast mun á heimasíðu danska Biblíufélagsins í september er afrakstur margra ára rannsókna og vinnu Hans Arne, sem hann mun nú góðfúslega veita öllum aðgang að, sem áhuga hafa á efninu.

Þetta áhugaverða efni er bæði hægt að nota sem kennsluefni og til fræðslu fyrir litla hópa eða einstaklinga. Þar er m.a. að finna tilvísanir í texta Biblíunnar og sálma þar sem textinn fjallar um plöntur Biblíunnar. Sálmana er hægt að lesa eða syngja. Í efninu er einnig að finna fjölbreyttar hugleiðingar Hans Arne, reynslusögur úr hans eigin lífi og spurningar sem hægt er að hafa til grundvallar fyrir umræður.

Lauslega þýtt af heimasíðu danska biblíufélagsins.  Sjá nánar á http://www.bibelselskabet.dk/nyheder/nyhedsoversigt/arkiv2016/livets_trae