Sunnudaginn 21. ágúst kl. 17 verður í Geitlandi 33 sumarhittingur unga fólksins í Biblíufélaginu.
Hópurinn, sem samanstendur af fólki frá 18-25 ára, hefur hist reglulega í tvö ár. Pétur Ragnhildarson, guðfræðinemi, er einn forsvarsmanna hópsins. Hann segir:
„Biblíufélagið er mikilvægt félag sem hefur það að markmiði að stuðla að útbreiðslu Biblíunnar og notkun hennar. Nýir tímar, með breyttri umræðuhefð og tæknivæðingu fela í sér áskorarnir og mörg tækifæri. Eitt af því sem unga fólkið í Biblíufélaginu vill gera er að vekja athygli á Biblíunni og kynna hana og boðskap hennar meðal ungmenna. Ég hef sjálfur kynnt Biblíufélagið og starfsemi þess í unglingastarfi í kirkjum og kristnum trúfélögum og fengið góð viðbrögð. Á Íslandi starfa mörg kristin trúfélög sem hafa öll mismunandi áherslur eins og við þekkjum. Það er mjög mikilvægt að starfandi sé öflugt Biblíufélag sem tekst að sameina allt kristið fólk ásamt því að kynna Biblíuna fyrir þeim sem þekkja hana lítið eða ekkert. Boðskapur Biblíunnar á vel við í dag líkt og áður. Þess vegna viljum við, ungt fólk í Biblíufélaginu leggja okkar hönd á plóg“.