Fyrirsögnin hér að ofan vekur upp margar vangaveltur um tengsl ungs fólks og Biblíunnar. Þekkir ungt fólk Biblíuna? Les það hana? Ætti ungt fólk að lesa hana? Án þess að hafa rannsakað hug ungs fólks tel ég mig geta svarað af nokkru innsæi þar sem ég sjálfur flokkast í hópinn sem um ræðir. Ég tel öruggt að um það bil allt ungt fólk hafi heyrt minnst á Biblíuna og tekið einhvers konar afstöðu til þess sem hún ber að geyma. Hún hefur einstaka stöðu meðal bóka í samfélagi okkar. Hvaða önnur bók er jafn víðfræg og knýr fólk með jafn sterkum hætti að taka afstöðu til þeirra orða sem hún bera að geyma?
En lestur hennar helst ekki í hendur við frægð hennar. Að minnsta kosti ekki meðal ungs fólks af því sem ég fæ séð. Margar ástæður eru þar að baki en ein þeirra er alla vega þessi: Biblían er fornt rit og oft erfitt og tímafrekt að botna í því. Ungt fólk hefur ekki gagn og gaman af að lesa eitthvað sem það skilur ekki. Í leit að einhverju sem gagnast þeim og nýtist vel í lífinu verður oft eitthvað annað en Biblíulestur fyrir valinu. Ég hugsa að mörg Gídeon-nýjatestamenti hafi verið lögð til hliðar eftir nokkrar blaðsíður og ekki tekin upp aftur af þessum ástæðum.
Margt er hægt að gera til þess að hjálpa ungu fólki að skilja Biblíuna betur t.d. útgáfa skýringarrita og stuttra myndbanda á vefinn, gerð geinarbetri inngangsorða að hverju riti o.s.frv. En hafa ber í huga að rit Biblíunnar voru skrifuð með það fyrir augum að vera lesin upphátt í samfélagi en ekki í einrúmi. Því ætti ekki allur þungi að liggja á því að auka persónulegan Biblíulestur. Heldur ættu kirkjur að vanda prédikunar- og kennsluhlutverk sitt og gæta þess að leggja Biblíuna út þannig að boðskapur hennar tali til ungs fólks og gagnist þeim í lífinu.
Biblían hefur gagnast mér vel í mínu lífi og er stöðug uppspretta innblásturs og huggunar. Ég get óhætt mælt með lestri hennar og er sannfærður að annað ungt fólk hefði mikið gagn af því að kynna sér boðskap hennar betur. Eitt af því sem heillar mig mest við bókina er hvað hægt er að lesa hana á margan hátt. Það má lesa hana sem klassískt bókmenntaverk eða kryfja texta hennar með „dauðhreinsuðum“ verkfærum Biblíufræðanna. Hana má auk þess lesa í trúarlegum tilgangi; í leit að persónulegri leiðsögn, huggun og hvatningu frá Guði. Hvernig sem hún er lesin veldur hún ekki vonbrigðum. Hún er ótæmandi uppspretta hugsunar sem á einn eða annan hátt fær lesandann til að hugsa um Guð og tengsl hans við sjálfan sig, annað fólk og umhverfi sitt. Því hvet ég þig lesandi góður að láta Biblíuna ekki fram hjá þér fara.

Ólafur Jón Magnússon, guðfræðinemi
birt í B+ blaðinu 2016