Allir trúa á eitthvað! Við hringjum og pöntum pizzu í þeirri trú að pizzan skili sér. Við póstleggjum bréf því við trúum því og treystum að bréfið muni skila sér á leiðarenda. Í stuttu máli sagt: Það er ekki hægt að lifa daglegu lífi eðlilega án þess að trúa á vissa hluti.

Ég sit í stól núna. Ég settist í stólinn í góðri trú um að stóllinn væri nógu sterkur til að brotna ekki undan mér. Eftir að hafa sest breyttist trú mín í þekkingu með því að sannreyna að stóllinn hélt mér. Núna veit ég að stóllinn heldur.

Allir trúa á eitthvað – myndir þú treysta þessum stól?

Allir trúa á eitthvað. Spurningin er bara  á hvað við trúum. Ef við trúum á eitthvað sem ekki stenst þegar á reynir verðum við oft fyrir skaða. Rétt eins og stóllinn sem ég settist í hefði brotnað með þeim afleiðingum að brotin spýta hefði stungist í bakið á mér.

Þá vaknar spurningin: Hvernig greinum við á milli þess hvað stenst traust okkar og hvað ekki? Það fyrsta sem við notum er rökhugsun okkar og getan til að greina á milli þess hvað er satt og ósatt. Ef ég sé að einn af fjórum fótum stólsins er skakkur þá get ég dregið þá ályktun að stóllinn sé ótraustur. Eða, ef ég sé auglýsingu frá pizzastað og heimasíða staðarins er óvirk þá er ólíklegt að ég hringi þangað til að panta pizzu.

Við getum notað rökhugsun okkar og greind fyrir hversdagslega hluti eins og dæmin hér að ofan sýna, en einnig við stóru spurningar lífsins eins og: Trúi ég á Guð? Hvers vegna erum við hér? Hvernig varð lífið til? Er til illt í veröldinni? Við notum augun og skoðum stólinn áður en við setjumst til að afla gagna og staðreynda um það hvort stóllinn haldi. Á sama hátt getum við notað skilningarvit okkar og rökhugsun til að skoða staðreyndirnar um það hvort Guð er til. Ef við komumst að því að meiri líkur séu á því en minni getum við ákveðið að leggja trúnað á það og lifað svo lífi okkar samkvæmt því.

Annað sem við notum til að greina á milli þess hvað er satt og ósatt er reynsla okkar. Ef títt nefndur stóll brotnar þá forðast ég upp frá því stóla af þessari gerð eða sest í þá með varúð. Brennt barn forðast eldinn. Sömuleiðis, ef ég legg trúnað á það að Guð sé til og lifi samkvæmt því þá mun reynsla mín staðfesta eða kollvarpa því hvort þetta sé satt.

Fleira má nefna sem við notum til að greina á milli þess hvað við getum sett traust okkar á. T.d. ef ég á góðan vin sem ég treysti og hann fullyrðir að stóllinn haldi þá er líklegt að ég trúi honum og láti reyna á að setjast í stólinn.

Aðal atriðið er þetta að allir lifa í trú og trú á Guð er um margt líkt því sem við leggjum trúnað á dags daglega eins og að bíllinn okkar fari í gang, börnin skili sé heim úr skólanum og annað þvíumlíkt.

Ef þú vilt vita meira um hvaða rök eru fyrir því að Guð sé til þá endilega hafðu samband. Guð hefur aldrei ætlast til þess að við trúum á hann “í blindni” eða þvert gegn því sem skynsemin segir heldur hefur hann opinberað sig fyrir okkur. Eftir að hafa skoðað rökin fyrir tilvist Guðs er það mín niðurstaða að það þurfi mun meiri trú til að vera guðleysingi heldur en að viðurkenna trú á Guð!

sjá á http://selfossgospel.is/index.php/kirkjan/pistill/93-allir-trua-a-eitthvadh

Ágúst Valgarð Ólafsson, fostöðumaður Hvítasunnukirkjunnar á Selfossi