Biblíufélagið á Nýja Sjálandi hefur gefið út nýja þýðingu á Lúkasarguðspjalli á tungumáli maóría en þeir eru frumbyggjar Nýja Sjálands, fyrstu mennirnir sem settust að í landinu. Þeir byggðu upp sinn eigin menningarheim og eigið tungumál.
Það hefur tekið 15 ár að vinna að nýrri Biblíuþýðingu yfir á tungumál maóría og Lúkasarguðspjall er fyrsta ritið í þeirri þýðingarvinnu sem nú er gefið út. Þýðingin er sett fram í nokkrum dálkum til að hægt sé að bera saman nýju þýðinguna og þá sem gefin var út árið 1952. Þá er einnig hægt að skrifa niður athugasemdir við nýju þýðinguna en með því vonast Biblíufélagið til að skapa umræðu um textann sem mun hjálpa til við áframhaldandi þýðingarvinnu.

Kito Pikaahu, biskup anglísku kirkjunnar er spenntur yfir nýju þýðingarvinnunni.
„ Fyrir kristið fólk sem er að læra tungumál frumbyggjanna mun nýja þýðingin gefa dýpri innsýn í starf Jesú eins og sagt er frá í Lúkasarguðspjalli. Það ætti að hafa mikil áhrif á alla frumbyggja, sama á hvaða aldri þeir eru“

Dr. Stephen Pattemore, sem er formaður þýðingarnefndarinnar segir:
„Samfélagið breytist og tungumálið tekur breytingum líka. Tungumál okkar barna er ekki það sama sem afi og amma okkar lærðu. Það er mikilvægt og brýnt verkefni að koma fagnaðarerindinu yfir á tungumál sem unga kynslóðin skilur“

Árið 1987 var tungumál maóría viðurkennt sem opinbert tungumál á Nýja-Sjálandi og í dag eru um 600.000 maóríar á Nýja-Sjálandi en einnig búa einhverjir í Ástralíu, Bandaríkjunum og Kanada.

Biðjum fyrir þýðingarvinnu Biblíufélagsins á Nýja Sjálandi.