Norsk kona vatt sér upp að mér í Dómkirkjunni í Osló og spurði hvort ég væri íslensk. Hún sagði síðan: „Mikið voruð þið heppin að fá Biblíuna í heild sinni þýdda á íslensku þegar árið 1584. Við hér í Noregi fengum okkar Biblíu ekki fyrr en á 19. öld.  Við notuðumst við dönsku Biblíuna og varðveittum þess vegna ekki tungumálið okkar“. Ég svaraði henni til að við værum mjög þakklát fyrir það. Ég er þakklát.

Það var menningar- og bókmennarlegt afrek þegar Guðbrandsbiblía kom út 1584, Biblían sem kennd er við Guðbrand Þorláksson Hólabiskup. Biblían hefur verið þýdd á fleiri tungumál en nokkur önnur bók í heiminum. Íslenska útgáfan var meðal þeirra 20 fyrstu sem gerðar voru. Í Biblíunni endurspeglast allt litróf mannlífsins og það er kannski einmitt þess vegna sem fólki finnst Biblían tala inn í aðstæður sínar og finnur samsömun við texta hennar. Þessir fornu textar eiga erindi við fólk í dag og kristið fólk tekur við boðskap hennar sem orði Guðs.

Allt frá öndverðu hefur verið stefnt að því að Biblían sé fagurfræðilega vel þýdd og þrátt fyrir að útgáfurnar séu nokkuð mismunandi að gæðum, þær ellefu sem til eru á íslenskri tungu, þá hefur markmiðið ætíð verið að gera vel við þýðingu textans. Í nýjustu útgáfu Biblíunnar, frá árinu 2007, var sama markmið viðhaft, að Biblían væri þýdd á hina fegustu íslensku og að Íslendingar gætu verið stoltir af þýðingunni. 

Í dag er auðvelt að nálgast Biblíuna og lesa hana. Það er hægt að lesa hana á heimasíðu Biblíufélagsins, www.biblian.is, það er hægt að hlusta á hana sem hljóðbók eða lesa sem rafbók. Hægt er að fá send biblíuorð dagsins í tölvupósti, svo að leiðirnar til að lesa Biblíuna og kynna sér fjársjóð hennar eru fjölbreyttar í dag, nokkuð sem fyrri kynslóðir gátu ekki látið sig dreyma um. En það eru ekki allir í heiminum sem eiga Biblíuna á sínu móðurmáli.

Biblíuþýðingar
Á árinu 2015 var lokið við þýðingu á Biblíunnar á 50 ný tungumál. Ellefu þjóðabrot fengu í fyrsta sinn Biblíuna í heild sinni þýdda á sitt móðurmál. Þrátt fyrir þetta er enn um hálfur milljarður manna sem hefur ekki aðgang að Biblíunni á sínu móðurmáli. Þetta eru upplýsingar frá Sameinuðu biblíufélögunum (United Bible Societies) sem kynntu nýlega nýjustu tölur af biblíuþýðingum í heiminum.
Næstum 5,1 milljarður manna hafa í dag aðgang að Biblíunni á sínu eigin tungumáli, aðrir hafa fengið einstaka hluta Biblíunnar þýdda á sitt móðurmál. Af 3952 tungumálum heimsins, sem töluð eru af 497 milljónum manna, er ekki til þýðing af Biblíunni.

Hið íslenska biblíufélag hefur stutt við þýðingar og útgáfustarf í mörgum löndum og mun halda því verkefni áfram. Það er ekki nóg að Biblían sé til á ensku eða frönsku, að lesa Biblíuna á sínu móðurmáli eykur skilninginn og gefur nýja sýn.  Það er þess vegna mikilvægt að eiga þess kost að lesa Guðs orð á sínu tungumáli og fyrir kirkjuna sem slíka er það nauðsynlegt að Biblían sé fáanleg á öllum tungumálum.

Biblían ómetanleg
Fyrir mér er Biblían ómetanleg. Í hana sæki ég styrk, hughreystingu, gleði og innri frið í amstri daganna. Með árunum kann ég enn betur að meta þau grunngildi sem Biblían leggur áherslu á og vildi óska að fleiri mættu reyna þá vináttu og þann innri frið sem boðskapur hennar veitir. 

 
Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags