Jónsmessa hefur ekki verið mikil hátíð á Íslandi en á Norðurlöndunum er kveikt í brennum, fagnað, dansað og sungið.  Ekki vita þó allir um uppruna þessarar hátíðar.
Dagurinn er helgaður Jóhannesi skírara en Rómarkirkjan á fyrstu öld ákvað að það yrði haldið upp á fæðingarhátíð Jesú og Jóhannesar.

Jónsmessan er við sumarsólstöður en jól, fæðingarhátíð Krists,  við vetrarsólstöður. Í Biblíunni er sagt frá presti í Jerúsalem sem hét Sakaría en kona hans hét Elísabet. Hún var óbyrja og því var það mikið bænasvar þegar Elísabet varð þunguð og eignaðist son sem fékk nafnið Jóhannes. Jóhannes var frændi Jesú, sex mánuðum eldri en hann.
Sagt er frá því að Jóhannes  hafi leitað í óbyggðirnar, gengið um í klæðum úr úlfaldahári, gyrtur leðurbelti, nærðist á engisprettum og villihunangi þegar hann fékk spámannlega köllun, boðaði komu Messíasar og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar syndanna. Jóhannes átti marga lærisveina og meðal annars voru þar postular sem síðar fylgdu Jesú.
Í Markúsarguðspjalli segir að Jóhannes hafi prédikað svo:
„Sá kemur eftir mig, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans. Ég hef skírt yður með vatni, en hann mun skíra yður með heilögum eldi.“

Jóhannes skírði fjölda fólks við ána Jórdan og þangað kom Jesús til hans. Jesús tekur skírn af honum og þá áttaði Jóhannes sig á því að hér var Messías kominn og sjálfur yrði hann að „minnka“ og víkja fyrir hinum boðaða konungi, sem mættur var þar til ríkis síns.

Jóhannes var hálshöggvinn og legstaður hans var talinn hafa verið í Sebaste.
Margar kirkjur á Íslandi voru fyrrum helgaðar Jóhannesi skírara, hann var m.ö.o. nafndýrlingur sautján guðshúsa og verndardýrlingur tíu. Mætti sem dæmi nefna hér Stað í Grunnavík, Bægisá í Hörgárdal, Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og Viðey.

sjá nánar á
http://www.bibel.no/Nyheter/Nyheter2016/Bibel230616
og
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1025001/