Það var hátíðardagur, þegar Hið færeyska biblíufélag var tekið inn sem sjálfstæður meðlimur Sameinuðu biblíufélaganna. Inntakan varð að raunveruleika fyrr í maímánuði í Fíladelfíu í Bandaríkjunum, þar sem Sameinuðu biblíufélögin héldu aðalfund sinn.
Bergur Debes Joensen, formaður hins færeyska biblíufélags, varð himinlifandi, en hann sat fundinn í Fíladelfíu.
„Ég er viss um að það þýðir að áhuginn á alþjóðlegu biblíustarfi muni fara vaxandi á meðal Færeyinga. Við fengum opinbera tilkynningu frá Sameinuðu biblíufélögunum um inntökuna á árlegum félagsfundi þann 12. mars síðastliðinn og að sjálfsögðu varð það til þess að fjölga fundargestum og fylla upp í fjölmiðlana eftir á. Færeyska útvarpið hefur sýnt inntökunni sérstakan áhuga.“
Inntakan í Sameinuðu biblíufélögin kemur í eðlilegu framhaldi af sjálfstæðis-yfirlýsingu Hins færeyska biblíufélags, sem stofnað var árið 2012 sem afleiðing þess, að færeyska kirkjan hlaut sjálfstæði árið 2007. Þá tóku Færeyingar við einkaréttinum á færeysku Biblíunni af Hinu danska biblíufélagi, sem af hlýhug hefur stutt sjálfstæðisyfirlýsinguna og hlakkar til samstarfs í framtíðinni.
Með inntökunni í þetta alþjóðlega biblíufélag er nú einnig orðið tímabært að Færeyjar verði skráðar af samþykktalista Hins danska biblíufélags, en það var gert á fulltrúaráðsfundi þann 26. maí síðastliðinn en sú afskráning mun ganga í gildi árið 2017.
Bergur Joensen álítur að sjálfstæðið hafi haft góð áhrif á málefni Biblíunnar í Færeyjum:
„Að hafa sitt eigið biblíufélag hefur í för með sér ábyrgð og vöxt. Allt ferlið hefur sýnt og sannað að þetta var rétta leiðin fyrir Færeyjar. Ábyrgð skuldbindur okkur og gerir kröfur til okkar vegna skipulags og efnahags og það hefur vöxt, ný markmið og meiri vöxt í för með sér.“
Hann er einnig þeirrar skoðunar að inntakan í Sameiginlegu biblíufélögin muni hafa mikla þýðingu.
„Sameinuðu biblíufélögin hafa þýðingarráðunauta og hafa forystu í heiminum á sviði biblíuþýðinga. Fyrir tilstilli þessa félags skuldbindum við okkur líka til þess að axla ábyrgð á biblíustarfinu á alþjóðlegum vettvangi. Við í Færeyjum höfum verið svo heppin að fá Biblíuna á okkar eigin tungumáli — og það meira að segja í tveimur þýðingum, en úti í heimi eru hundruð, ef ekki þúsundir tungumála og manna, sem ekki eiga Nýja testamentið! Og í mörgum löndum er þar að auki grimmilegt stjórnarfar með styrjöldum og ofsóknum. Neyðin er mikil!“
Ásamt Hinu færeyska biblíufélagi var Hið palestínska biblíufélag og Hið mongólska biblíufélag boðið velkomið í hópinn.
Inntakan í Sameinuðu biblíufélögin á sér stað eftir gríðarlangt viðurkenningar-ferli, þar sem sérstök félagsmannanefnd tekur afstöðu til þess, hvort hvert og eitt biblíufélag hefur þá eiginleika til að bera, sem krafist er til aðildar. Sé raunin sú, er það undir félagsmönnum komið að greiða atkvæði með eða á móti inntökunni.
Hið íslenska biblíufélag býður biblíufélagið í Færeyjum innilega velkomið í hóp Sameinuðu biblíufélaganna og óskar þeim Guðs blessunar.