Vegleg afmælishátíð vegna 200 ára afmælis norska biblíufélagsins fór fram í Osló dagana 26.-29. maí sl.
Þema hátíðarinnar var "Biblía fyrir alla". Í tilefni af afmælinu var boðið upp á fjölbreytta dagskrá, meðal annars biblíumaraþon í garði Dómkirkjunnar í Osló, en hún er í hjarta borgarinnar rétt hjá aðal göngugötunni, Karl Johans gate.

Ungt fólk frá Kristilegu stúdentahreyfingunni og samtökunum Ungt fólk með hlutverk stóðu að lestrinum og lesararnir komu víðs vegar að úr Noregi. Á milli lestra var boðið upp á tónlistaratriði og tónlistarmenn kynntu ný lög með textum úr Biblíunni.

Margt manna kom og fylgdist með, sumir stoppuðu stutt, aðrir lengur og hlustuðu. Boðið var upp á kaffi og ef einhverjir óskuðu eftir samtali var orðið við því.
Afmælishátíðin þótti einkar vel heppnuð, enda kom fjöldi fólks að skipulagningu hennar.

Norska biblíufélagið er eitt stærsta og öflugasta biblíufélag í heiminum og styður umfangsmikið þýðingarstarf og útgáfu Biblíunnar um allan heim. Á afmælishátíðinni var sérstaklega safnað fyrir Biblíum sem sendar verða til Kúbu.

Þess má geta, að Hið íslenska biblíufélag hefur einnig lagt þeirri söfnun lið. Framkvæmdastjóri HÍB hitti fulltrúa kúbverska biblíufélagsins á afmælishátíðinni í Osló og var uppörvandi að heyra hvernig kristin trú hefur verið að styrkjast á Kúbu síðustu árin og hversu þrá fólks eftir því að eignast Biblíu vex dag frá degi.