200 ára afmælishátíð norska biblíufélagsins hófst í dag með hátíðlegri dagskrá í Dómkirkjunni i Oslo. Þar var meðal annars flutt verk sem samið hefur verið í tilefni afmælisins um spámanninn Elía. Var þar bæði leiklestur og tónlistarflutningur. „Í stormi og kyrrð, frásögur af Elía“ er heiti verksins og spilað á fagott, blokkflautu og gítar.
Yfirskrift afmælisársins er Biblía fyrir alla og norska biblíufélagið vill nota afmælisárið til að kynna Biblíuna enn betur fyrir fólki. Gefin hefur verið út sérstök afmælisbiblía í tilefni hátíðahaldanna.
Í kvöld verða lofgjörðartónleikar í Dómkirkjunni og einnig verður boðið upp á Biblíumaraþon þar sem ákveðnir kaflar Biblíunnar verða lesnir upphátt.
Alla helgina verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Íslendingum í Oslo er sérstaklega bent á að kynna sér dagskrá hátíðarinnar á heimasíðu norska biblíufélagsins, http://www.bibel.no/