Ég hef alltaf verið mikill bókaormur og lesið mikið í gegnum tíðina. Þegar ég var yngri var á heimili mínu sérstakt herbergi sem var fullt af bókum, eiginlega lítið bókasafn. Foreldrar mínir áttu mikið af allskyns bókum sem opnuðu mér ólíka heima, fluttu mig í ókunnug lönd, sýndu mér ævintýraveröld og gáfu mér vængi fyrir ímyndunaraflið. Ég las sumar bækurnar aftur og aftur og varð aldrei leið á þeim.
Margar þessara bóka og bækur sem ég las síðar á lífsleiðinni hafa haft áhrif á mig og mótað mig. En ein er sú bók sem hefur átt mestan þátt í að gera mig að þeirri manneskju sem ég er er, mótað mín lífsgildi og viðhorf til lífsins. Bók sem aldrei fyrnist eða fölnar og hægt er að lesa aftur og aftur, það er Biblían. Biblían er svo sannarlega bókasafn og full af frásögum, ljóðum, og sögulegum heimildum. Hún höfðar mikið til mín, stórkostlegar lýsingar á atburðum og upplifunum, auk þess frásögur af raunverulegu fólki í raunverulegum aðstæðum. Þó að meira en 2000 ár séu liðin ná þessar sögur til mín og inn í mínar aðstæður. Bækurnar 66 eru ólíkar en allar fjalla þær um Guð skapara alls og frelsara.
Ég kynntist starfi KFUK sem unglingur og fór þá að hafa raunverulegan áhuga á Biblíunni og hvað í henni stóð. Ég velti fyrir mér tilgangi lífsins eins og margir gera, efaðist um margt en komst að raun um að Guðs orð er það sem gefur tilgang, kærleika og frið. Ég hreifst af frásögum fólks um Biblíuna og hvað það var tilbúið að fórna miklu til að orð Guðs kæmist til allra manna. Ég fór á mörg námskeið, fór norskan biblíuskóla, var í biblíuleshópum sem gáfu mér meiri skilning en reyndu líka á viðhorf mín og traust á Guð. Ég hef verið svo lánssöm að fá að starfa í barna- og unglingastarfi KFUM og KFUK og einnig í sumarbúðum þar sem Guðs orð er boðað. Í gegnum það starf á ég vini fyrir lífsstíð og reynslu sem styrkti mig sem persónu og gaf mér hugrekki til að vinna að útbreiðslu kærleika Krists. Þetta eru forréttindi að mínu mati.
Biblían er alltaf á náttborðinu mínu, mér finnst gott að hafa hana nálægt. Ég get gluggað í hana hvenær sem ég vil og tek hana með í nánast öll ferðalög sem ég fer. Inn í henni eru ótal miðar, kveðjur og annað sem ég hef fengið í gegnum tíðina, líkt og lítil dýrmæt þroskasaga. Ég tók upp á því fyrir mörgum árum að safna Biblíum frá öllum heimsins hornum og á núna ágætis safn sem fer nokkuð vel í hillu. Margar þeirra eru á framandi tungumáli sem ég ekki skil en hafa þann tilgang að minna mig á hve orð Guðs er útbreitt og hversu mikilvægt það er að segja frá. Biblían er ekki bara skraut í hillu, hún er lifandi orð sem hefur áhrif og gefur tilgang í líf fólks.
Það er mikilvægt í okkar veröld í dag að minnast kærleika Krists og líferni hans. Hann fór ekki manngreinaálit eða fordæmdi fólk. Það virðist því miður vera partur af menningu okkar í dag, hvort sem það er í samskiptum fólks á netinu, í fjölmiðlum eða í beinum samskiptum manna. Það er von mín og trú að við getum fetað í fótspor frelsarans.
Í Biblíunni eru mörg vers sem hafa verið uppspretta ótal söngva og sálma sem ég hef lært í gegnum tíðina og halda jákvæðninni á lofti. Biblían geymir einnig ótrúlega falleg og áhrifarík orð, eitt af þeim eru orðin úr Sálmi 91, 11. vers sem hafa reynst mér vel í ólíkum aðstæðum, gleði og sorg.
“Því að þín vegna býður hann út englum sínum til að gæta þín á öllum vegum þínum”.
Megi þessi orð og fleiri úr bókasafni Biblíunnar veita þér von og styrk í lífinu.

Sigurbjört Kristjánsdóttir, leikskólakennari