Sænsk lúðrasveit frá Linköping kemur til landsins föstudaginn 6. maí og dvelur hér til þriðjudagsins 10. maí.
Lúðrasveitin heldur tónleika í Fíladelfíu á laugardag 7.maí kl. 18.00 og er frítt inn. Þá mun hún þeyta lúðrana í samkomunni kl. 11.00 á sunnudagsmorgun.
Lokatónleikarnir verða í Fella- og Hólakirkju í Breiðholti á sunnudagskvöld kl. 20.00. Missið ekki af þessu góða tækifæri til að heyra frískandi lúðrablástur og fallega tónlist. Þar verða tekin samskot til Biblíufélagsins.
Lúðrasveitin er yfirleitt kölluð Brasset og tilheyrir Ryttargårdskyrkan í Linköping. Lúðrasveitin tekur þar þátt í safnaðarstarfinu og spilar við hin ýmsu tækifæri. Sveitin var stofnuð 1960 og í henni eru 27 hljóðfæraleikarar á aldrinum frá tvítugu til áttræðs. Efnisskráin er fjölbreytt, sænsk þjóðlög, Hjálpræðisherstónlist og eldri sálmalög. Stjórnandi er Daniel Bjurhamn.
Brasset á mörg og löng tónleikaferðalög að baki. Hún hefur m.a. farið í tónleikaferð um Bandaríkin og Kanada, Hong Kong og Japan, Ástralíu og Nýja Sjáland. Þá hefur hún ferðast víða um Evrópu og spilað t.d. í Þýskalandi, Frakklandi, Eistlandi og Noregi.