Jack Newman, starfsmaður ameríska biblíufélagsins skrifar:
Hvernig líður þér?
Þetta er einföld spurning og í reynd fremur óræð. En ég stend mig að því að bera þessa spurningu upp við nánast alla sem ég rekst á í dagsins önn — hvort sem um er að ræða samstarfsfólk, nágranna eða náungann á Dunkin Donuts sem lagar fyrir mig kaffið.

Þegar grannt er skoðað, er þetta sennilega algengasta spurningin sem ég ber upp við sjálfan mig. En hvort sem við erum veitendur eða þiggjendur þessarar spurningar, fæ ég það á tilfinninguna að okkur hættir til þess að svara á svipaðan hátt.

Ég hef tekið saman lista yfir þrjú algengustu svörin sem fólk lætur út úr sér — þar á meðal ég sjálfur — þegar spurt er: „Hvernig hefur þú það?“ Hef ég krafist tölfræðilega nákvæmra gagna út úr skoðanakönnun? Nei. En við skulum sjá hvort þessi svör hljómi kunnuglega:

„Gott, hvað segir þú?“
„Upptekinn!“
„Þreyttur!“

Ég er ekki barnanna bestur þegar málið snýst um að brosa og segjast hafa það „fínt“ eða „gott“ þegar tekið er smáspjall í dagsins önn. En annað svarið og það þriðja á listanum segja okkur að annríki og þreyta vofa yfir flestum okkar.

Stendur þú þig að því að lifa fyrir helgina? Þarft þú að taka þér frí? Ert þú eins og ég — þráir oft að fá þér lúr í stórum, þægilegum hægindastól? Þessar algengu óskir opinbera löngun okkar í eitthvað dýpra. Innst inni viljum við öll hvíld sem varir.

Þar sem þrá okkar eftir hvíld getur verið algeng, má vera, að þær kringumstæður, sem valda okkur þreytu, séu mismunandi. Ef til vill ert þú nýbyrjaður í starfi og stendur þig að því að vinna fram eftir nóttu til þess eins að ná samstarfsfólki þínu. Ef til vill kemur miður aldur harðar niður á þér en þú vilt viðurkenna. Eða kannski heldur streita vegna brostinna tengsla vöku fyrir þér á næturnar.

Það skiptir engu máli hvaða streituvaldar draga þig niður. Þú getur snúið þér að Orði Guðs þegar þú þarfnast sárlega hvíldar. Og sá friður, sem Guð getur veitt, er miklu betri en meira að segja hinn stundlegasti kraftblundur.

Hér eru fimm biblíuvers um djúpa hvíld sem Guð ber fram fyrir sinn lýð. Er þú lest, skalt þú biðja fyrir þeirri líkamlegu eða andlegu byrði sem þjakar þig á þessari stundu. Biddu hann um að sjá þér fyrir friði og hvíld í gegnum Orð sitt:

Slm 4.9:
Í friði leggst ég til hvíldar og sofna því að þú einn, Drottinn, lætur mig hvíla óhultan í náðum.

Slm 23.1-2:
Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.

Matt 11.28:
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.

Heb 4.9-10:
Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs. Því að sá sem gengur inn til hvíldar hans fær hvíld frá verkum sínum eins og Guð hvíldist eftir sín verk.

1Mós 2.2-3:
Á sjöunda degi lauk Guð verki sínu og hvíldist hinn sjöunda dag frá öllu því er hann hafði unnið. Og Guð blessaði sjöunda daginn og helgaði hann því að þann dag hvíldist Guð frá öllu sköpunarverki sínu sem hann hafði unnið að.
ísl. þýðing: Þ.H.Þ.

sjá nánar á http://news.americanbible.org/blog/entry/bible-blog/bible-verses-to-combat-your-busyness-and-fatigue?utm_source=corporate_site&utm_medium=web&utm_campaign=bible_blog