Ég á svolítið af Biblíum. Þær eru á hinum og þessum tungumálum, sum skil ég ekki einu sinni. Faðir minn hóf að safna Biblíum á erlendum málum fyrir einhverjum áratugum. Hann gaf mér svo safnið. Ég hef svo aukið við það smátt og smátt – þó án allra öfga. Pabbi spyr mig, nánast í hvert sinn sem við hittumst: „Hvað eru Biblíurnar orðnar margar?“
Guðsorðabækur af ýmsu tagi rata líka í hillurnar hjá mér. Helst gamlar. Það er gaman að handleika þær og skoða orðlag, þýðingar og áherslur, finna söguna líða og skynja mátt Orðsins um aldir.
Þessi söfnun er tómstundagaman, í bland við bókmenntaáhuga og einlæga trú á Jesú Krist; frelsarann, þann eina kjarna sem er í öllum þessum bókum, sama á hvaða tungumáli, burt séð frá aldri. Þess vegna, Hans vegna, þarf ég aðeins eina Biblíu. Helst á íslensku. Enska gæti dugað. Eða danska.
Huggun og uppörvun, orðsnilld og speki, dæmisaga og dulúð, fornir hættir fjarlægra þjóða, viðfangsefni dagsins í dag – allt er það í Biblíunni, þessari einu sem ég þarf. Biblían er sjóður sem ég eys af á hverjum degi, brunnur sem ég drekk úr. Hún er sístæður sannleikur og um leið áminnandi sjálfshjálparbók. Vel á minnst, ég hef aldrei náð nokkru sambandi við sjálfshjálparbækur – nema þær sem er að finna einmitt í bók bókanna, Biblíunni.
Það er stundum haft á orði, og til áherslu þess að Biblían sé mikilvæg bók, að arfur hennar og orðgnótt flæði svo um aðrar bókmenntir að ekki verði undan komist að rekast á vísanir eða tilvitnanir, stef eða myndir. Allt er það rétt, um það get ég vitnað – bærilega menntaður sem ég er í bókmenntum og reyndar líka leikbókmenntum. Um það get ég vitnað sem skrifandi maður, sílesandi einstaklingur og gruflandi grúskari. En, allt er það aukgeta – og afleiðing – þessarar mögnuðu bókar sem saman stendur af fjölda mismunandi rita.
Biblían er fyrst og síðast trúarrit okkar sem játum trú á Jesú Krist. Þetta er bókin Hans, vitnisburðurinn um hann – á löngum stundum boðskapur Hans. Frásögnin um loforð hans um hjálpræði okkur til handa. Það er ekki lítið. Þangað sæki ég vísdóm og styrk – svo ég geti haldið áfram að vera sá maður sem ég helst vill vera. Það er heldur ekki lítið. Verandi bara maður.
Biblíur á ótal tungumálum veita mér ánægju og gefa mér góðar stundir. Lykilinn að þeim stundum liggur í gegnum eina Biblíu – þessa einu sem ég þarf. Þessa einu sem ég verð að eiga. Verandi bara maður.

Guðmundur S. Brynjólfsson, rithöfundur og djákni