„Aðstæðurnar í dag eru allt aðrar en þær fyrir 25 árum, segir grísk-kaþólski presturinn, Roman Kravchick.
Nú hefur Biblíufélagið í Úkraínu afhent grísk-kaþólsku dómkirkjunni i borginni Lviv í vesturhluta Úkraínu þar sem Roman starfar Biblíur til þess að nota í barna- og fjölskyldustarfi kirkjunnar.
-Það eru um það bil 350 fjölskyldur sem tilheyra þessari dómkirkju, og við bjóðum upp á fjölbreytta starfsemi fyrir börn á öllum aldri.
Tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum, eru fjölskyldusamverur með biblíulestri, segir hann.
– Það koma bæði lítil og stálpuð börn. Og hvert og eitt þeirra á sína eigin Biblíu frá Biblíufélaginu.
– Þegar þau koma saman fara þau fyrst með bænir. Svo lesa þau texta úr guðspjöllunum og einn úr bréfunum í Nýja testamentinu. Loks leiðir prestur samræður um það sem þau hafa lesið. Í heild tekur þetta á milli 40 mínútna til eins klukkutíma.
– Við höfum einnig sumarbúðir fyrir börn og samkomur þar sem við deilum út barnabiblíum og hvetjum börnin til þess að lesa.
Grísk-kaþólska kirkjan er kapítuli út af fyrir sig. Hún er kaþólsk að því leyti að hún lýtur valdi páfans í Róm, en hún hefur haldið í atferli rétttrúnaðarins og orðfæri. Til að mynda er sungið í rétttrúnaðarkirkjunum án hljóðfæraleiks.
– Hvernig er aðgengið að Biblíum í dag, borið saman við fyrir 25 árum?
– Það er ekki hægt að bera það saman! Þökk sé bæði Guði og mönnum. Þökk sé öllum þeim sem gáfu Biblíurnar sem við fengum!
Hvað hugsar hann þegar hann horfir 25 ár fram í tímann?
– Mér er órótt vegna þess hvernig Gamla testamentið er notað. Fólk bæði notar og skilur Nýja testamentið. Við verðum að útskýra Gamla testamentið, og þá siði sem þangað eiga rætur sínar að rekja betur.
– Hefur gleðin yfir lestri í Biblíunni náð til kirkjunnar þinnar?
– Já! Já, svo sannarlega. Í kirkjunni okkar eru 250 fjölskyldur með í biblíuleshóp í heimahúsum klukkan níu á hverju kvöldi. Þær kveikja ljós og lesa upphátt úr Biblíunni heima. Kirkjan hefur átt frumkvæðið að þessu. Þessu fylgir biblíulestraráætlun sem við höfum búið til.
– Þar að auki fara þessar fjölskyldur með bænir úr Davíðssálmunum á hverjum degi. Þær fara í gegnum alla Sálmana tvisvar á ári, einn Davíðssálm á dag.
Þegar faðirinn gefur saman brúðhjón, gefur hann þeim Biblíu og hvetur þau til þess að lesa í henni.
– Þegar ég hitti aftur hjón sem ég hef gefið saman, spyr ég þau alltaf: Hvað hafið þið lesið í dag? Og oft geta þau sagt hvað þau hafa lesið.
– Þegar fólkið kemur á biblíufundi á þriðjudögum og fimmtudögum, fá prestarnir oft að heyra vitnisburði um það sem það hefur lesið í Biblíunni.
– Hefur þú hvatningarorð fram að færa til Biblíufélagsins?
– Þetta starf sem Biblíufélagið í Úkraínu sinnir í dag er býsna gott. Þegar ég sný mér til félagsins, hefur það alltaf eitthvað upp á að bjóða. Það mikilvægasta er að Biblíurnar liggi ekki óhreyfðar, heldur séu þær í notkun.
Biblíufélagið á Íslandi styður við starf og verkefni biblíufélagsins í Úkraínu
Tekið af heimasíðu norska biblíufélagsins