Pétur er frægasti lærisveinn Jesú.

Matteusarguðspjall 16.17-19:
Þá segir Jesús við við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum.

Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.

Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“

Pétur heitir í raun Símon. Hann er fiskimaður en þegar hann hittir Jesú, yfirgefur hann allt og fylgir honum. Það er Pétur sem játar þá trú, að Jesús er Kristur, lifandi sonur Guðs og ekki einvörðungu bráðvel gefinn snillingur.

Kletturinn
Þess vegna segir Jesús við Pétur, að hann sé sá klettur, sem Jesús vill byggja kirkju sína á. Á arameísku, því tungumáli sem Jesús talaði, nefnist klettur Kefas.  Á latínu verður það Petrus. Þess vegna þekkjum við Pétur nú á dögum sem Pétur en ekki sem Símon.

Í tengslum við að Jesús nefnir Pétur Klettinn, heitir hann honum lyklum himnaríkis. Hann heitir því einnig að allt, sem Pétur „bindur“ og „leysir“, verði „bundið“ og leyst“ á himnum. Það merkir, að Jesús veitir Pétri vald til þess að fyrirgefa syndir.

En Pétur fær ekki að baða sig í sviðsljósinu. Samtímis því sem hann lýsir því yfir, að Jesús sé sonur Guðs, vill hann ekki meðtaka það, að Jesús á eftir að líða og deyja. Já, raunar álasar hann Jesú fyrir þetta. Það verður til þess að Jesús kallar hann Satan. Satan merkir „andstæðingur“ og er oft notað í Biblíunni sem andstæðingur Guðs. Pétur er þar með einnig andstæðingur Guðs.

Það er ofsafengið orð, sem Jesús notar um sinn góða og trygga lærisvein. Ástæðan er í fyrsta lagi sú, að Pétur möglar yfir þeirri áætlun Guðs, að Jesús mun deyja mannanna vegna. Í öðru lagi er það vegna þess að hann hefur ekki skilið merkingu þess, að Jesús er Kristur. Pétur trúir því ennþá, að það merki að Jesús eigi að vera jarðneskur konungur. Hann skilur ekki, að Jesús á þvert á móti að vera þjónninn, sem líður og deyr fyrir mennina.

Enda þótt Pétur sé enn á meðal allra nánustu lærisveina Jesú og sé viðstaddur „útskýringuna á fjallinu“, þar sem hann sér guðdóm Jesú þá afneitaði hann Jesú.

Afneitarinn
Þá nótt, sem Jesús er færður til æðsta prestsins (Matteusarguðspjall 26.69-75, Markúsarguðspjall 14.66-72, Lúkasarguðspjall 22.54-62 og Jóhannesarguðspjall 18.15-27) til yfirheyrslu, eltir Pétur hann til þess að sjá það sem er á seyði. Hann stendur og ornar sér við bál, er hann er spurður, hvort hann sé ekki einn þeirra sem fylgt hafi Jesú. En Pétur neitar því og segist alls ekki þekkja hann. Jesús hafði sagt fyrir um það við síðustu kvöldmáltíðina, að Pétur myndi með þessum hætti afneita sér.

Pétur er sem sagt bæði játandi og afneitari, og þess vegna er hann náungi, sem maður getur séð sjálfan sig í.  Pétur vill gjarnan trúa, en samtímis því einnig láta Jesú passa inn í sinn eigin heim. Hann er vissulega fjarri því að vera fullkominn, en af þeim sökum er hann einmitt áreiðanleg ímynd þess að þrátt fyrir að maður sé hvikull, er maður ekki glataður.

Hvítasunnudagur
Í Postulasögunni heyrum við, að það er Pétur sem heldur fyrstu, stóru prédikunina á hvítasunnudag eftir dauða og upprisu Jesú. Hún fær margt fólk til  þess að taka trú á Jesú og láta skírast (Postulasagan 2.14-41). Pétur og Páll skipta þaðan í frá með sér því verkefni að breiða út trúna á Jesú, þannig að Páll tekur að sér að snúa þeim, sem ekki eru Gyðingar og Pétur annast trúboð á meðal Gyðinga.

Samkvæmt Postulasögunni er Pétur í þann veginn að verða áberandi persóna á meðal þeirra, sem taka trú á Jesú.

Píslarvottur
Hefðin segir, að Pétur hafi haldið til Rómar og stofnsett kristinn söfnuð þar, og að hann hafi verið tekinn af lífi í ofsóknum Nerós gegn kristnum mönnum. Það átti að krossfesta hann, en samkvæmt eigin ósk átti höfuðið að vísa niður, því að honum fannst hann ekki vera þess verðugur að deyja með sama hætti og Jesús.

Páfinn
Innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar er páfinn talinn vera beinn eftirmaður Péturs, sem samkvæmt Matteusarguðspjalli 16.18 átti að vera sá klettur, sem byggja skyldi kirkjuna á.  Embættið er þannig kletturinn, sem kirkjan er byggð á. Á þessu sviði hefur evangelísk-lútherska kirkjan, og þar með þjóðkirkjan, ekki sama skilning og rómversk-kaþólska kirkjan. Hér lesum við þetta með þeim hætti, að sá klettur, sem Jesús vill byggja kirkju sína á, er sú játning, sem Pétur ber fram.

Efnið tekið af heimasíðu norska bibliufélagsins.