Prédikun biskups Íslands frú Agnesar M. Sigurðardóttur, flutt á páskadag, 27. mars í Dómkirkjunni í Reykjavík

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega páska. Gleðilega hátíð. Í dag fögnum við og minnumst upprisu Krists frá dauðum. Fögnum sigri lífsins yfir dauðanum, fögnum sigri kærleikans yfir illskunni.

„Við Brusselbúar leyfum hatrinu ekki að vinna“ sagði ung kona í viðtali eftir hryðjuverkin á dögunum. Hatrið stýrði voðaverkunum, hatrið náði yfirhöndinni um stund. Við leyfum hatrinu ekki að vinna sagði konan. Hatrið leiddi til ofbeldis þar sem saklaust fólk lét líf sitt, aðrir urðu örkumla, enn aðrir særðir og allir miður sín.

„Enn á ný verðum við vitni að því að gerð er atlaga að okkar frjálsa samfélagi. Siðmenningu okkar og lífsháttum“ sagði forseti vor Ólafur Ragnar eftir þessa atburði.

Litla Ísland hefur ekki farið varhluta af fréttunum og gripið er til ráðstafana sem sýna að hatrið má ekki ná sér á strik og ofbeldi verður ekki liðið. Öryggisgæsla er hert og verðir laganna eru sýnilegri en annars.

Við gröf Jesú voru verðir á vakt. Hann hafði látið lífið á krossinum og tryggja varð að líki hans yrði ekki stolið, fjarlægt úr gröfinni. Konur sem höfðu staðið við krossinn hans og fylgt honum á ferðum hans vildu vinna síðasta kærleiksverkið fyrir hann. Þær vildu smyrja líkið eins og siður var í landi þeirra. Þær voru áhyggjufullar á leiðinni til grafarinnar, þær vissu sem var að þær hefðu enga burði til að fjarlægja steininn sem lokaði gröfinni. Áhyggjur þeirra voru óþarfar, steininum hafði verið velt frá og ungur maður í hvítri skikkju ávarpaði þær og sagði þeim að vinur þeirra væri ekki lengur í gröf sinni.

Við þekkjum þessa sögu, höfum oft heyrt hana og lesið í guðspjöllunum. Höfum veitt því athygli að konur voru fyrstu vottar upprisunnar og fengu það hlutverk að láta boðin berast. Við þekkjum líka sögurnar af því að Jesús birtist lærisveinum sínum og fylgjendum næstu dagana og vikurnar og var svo uppnuminn til himins fyrir augum þeirra.

Við höfum líka veitt því athygli að hvergi er upprisu Jesú lýst heldur er lýst viðbrögðum þeirra sem hann birtist upprisinn. Fólk varð hrætt, eins og konurnar við gröfina, hissa eins og Emmausfararnir, efins eins og Tómas sem vildi sjá naglaförin og snerta þau. Fólk bar vitni bæði þá og alltaf síðan um trúarfullvissu sína og áhrif Jesú á líf þeirra.

Textar Nýja-testamentisins um upprisuna eru vitnisburður trúar. Páll postuli, sem eins og kunnugt er vildi ekkert með Jesú hafa og vann gegn trúnni á hann og beitti fylgjendur hans ofbeldi, þar til hann varð fyrir þeirri reynslu að heyra rödd sem sagði: „Sál, Sál hví ofsækir þú mig?“ Sál er Páll postuli er snérist til trúar á Jesú eftir þessa reynslu sína. Páll fjallar ekki um upprisu Jesú í bréfum sínum, heldur vitnar hann um reynslu sína af því að hafa „séð Krist“, upplifað nærveru hans. Þessi nærvera er afleiðing trúarinnar en ekki undirstaða hennar. Trúin leyfir okkur að „sjá“ með innri augum okkar eins og Davíð Stefánsson segir svo fallega í sálmi sínum:

Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.

Mörg eru þau sem reynt hafa kraft trúarinnar í daglegu lífi sínu, þó nútíminn sé ekki ginnkeyptur fyrir boðskapnum samkvæmt opinberri umræðu.

Páskasagan gefur okkur tilefni til að finna fullvissu þó við efumst. Hún gefur okkur hugrekki til að horfast í augu við raunveruleikann þó hann sé okkur ekki alltaf hliðhollur og jafnvel svo dökkur að við örvæntum. Og jafnvel í þjáningunni er hægt að finna tilgang og gleði yfir því að bölið og þjáningin hefur ekki síðasta orðið frekar en krossinn forðum. Upprisa Jesú færir okkur vonarríka framtíð þar sem lífið og kærleikurinn sigra dauða og illsku.

Konurnar komu til grafarinnar árla dags, við sólarupprás. Nýr dagur var framundan. Páskadagur rann upp án þess að veröldin yrði þess vör að upprisa Krists myndi breyta miklu. Annað kom þó á daginn eins og við þekkjum og er kristnin fjölmennustu trúarbrögð heims. Það var erfitt fyrir fylgjendur Jesú að verða vitni að krossfestingu hans. Þeir höfðu treyst honum og trúað að hann væri Messías sem vænst var. Nú voru vonir þeirra orðnar að engu, trú þeirra hjóm eitt og kærleikurinn sem þeir höfðu borið til hans farinn. Fylgjendur hans upplifðu skömm yfir mistökum sínum, þorðu ekki að kannast við hann eða standa með honum á ögurstundu og voru hræddir við yfirvöldin og afleiðingar þess að hafa fylgt Jesú. Hryggð þeirra breyttist því í fögnuð þegar Jesús birtist þeim og sá fögnuður hefur fyrirhitt fylgjendur hans fyrr og síðar. Þess vegna getur kristið fólk um allan heim fagnað í dag og sagt í fullri einlægni og trúarvissu. Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn. Í lífi okkar birtist Jesús. Hann birtist okkur í fólki sem hjálpar, fólki sem styður, fólki sem huggar. Já öllu því góða fólki sem gengur með okkur lífsveginn.

Páskaboðskapurinn færir okkur trú á lífið. Trú á það að ofbeldi, óréttlæti, fátækt, græðgi og annað sem meiðir og deyðir hefur ekki síðasta orðið í heimi hér. Kærleikur, von, trú, fegurð, réttlæti, fyrirgefning, sáttargjörð munu hjálpa okkur á þeirri vegferð sem við verðum að feta til að yfirvinna hatrið og hið illa sem veður uppi allt of víða í heimi hér. Ofbeldisverk eru ekki unnin í nafni trúar. Kærleiksverk eru unnin í nafni trúar. Kristnir menn eiga að taka höndum saman til að vinna gegn þeirri óöld sem ríkir í heiminum. Kristnir menn eiga að standa saman og standa með lífinu og mennskunni hver sem í hlut á. Þegar samverjinn kom að slasaða manninum í dæmisögu Jesú spurði hann ekki hver beitti þig ofbeldinu eða hvers vegna léstu berja þig, heldur gerði hann að sárunum og kom honum á öruggan stað. Af dæmisögum Jesú, orðum hans og framkomu við fólk megum við læra og taka okkur til fyrirmyndar. Sem kristin þjóð eigum við að taka á móti flóttafólki hvort sem það er kristið eða annarrar trúar. Sem kristin þjóð eigum við að svara neyðarbeiðni Hjálparstarfsins vegna hörmunga fólksins í Eþíópíu sem er á barmi hungursneyðar vegna þurrka og uppskerubrests.

Hugsunarháttur og lífsafstaða hefur áhrif á líf hvers manns. Trú er lífsafstaða. Kristin trú er kærleiksrík trú, sem gengur út frá fylgd við hinn upprisna Drottinn Jesú Krist, sem boðaði fyrirgefningu, kærleika, réttlæti og frið. Einstaklingur sem aðhyllist þessa trú hefur áhrif á nærsamfélag sitt. Það er því ógjörningur að ætlast til þess að trúin hafi ekki samfélagsmótandi áhrif. Hér á landi er mikill meirihluti þjóðarinnar kristinn. Það segir sig því sjálft að kristin trú hefur mikil áhrif. Kristnar kirkjudeildir eru þó nokkrar á landi hér, sú fjölmennasta er hin evangelísk lúterska kirkja er kennd er við þjóðina, Þjóðkirkjan. Sú kirkja hefur skyldur umfram önnur trúfélög á landinu og er til dæmis sú eina sem hefur þjónustu í nærsamfélaginu um allt land. Um allt land er kristið fólk samankomið til að fagna þeim mesta gleðiboðskap sem hægt er að taka á móti, að dauðinn dó, en lífið lifir.

Upprisan birtist okkur í ýmsum myndum. Dauðinn er ekki bara þegar hjartað hættir að slá lífið slokknar. Dauðinn birtist okkur hvar sem bölið knýr dyra. Þegar áfengi er ofnotað, þegar eiturs er neytt, þegar ofbeldi er framið, þegar fólk er niðurlægt svo dæmi séu tekin. Upprisan á sér stað í lífi einstaklings þegar ljósið skín og styrkur kemur, þegar kærleikur vitjar og tökum er náð á hvers kyns vanda.
Þau sem tóku trú á Krist voru þess fullviss að hann væri Messías, konungurinn sem koma átti og frelsa þjóðina úr ánauð. Þau höfðu beðið þessa leiðtoga lengi. Vonbrigði þeirra urðu því mikil þegar konungurinn þeirra var tekinn höndum og niðurlægður og pyntaður fyrir framan augun á þeim. Þau stóðu vanmáttug við krossinn og efuðust um trú sína.

Miðað við þjóðfélagsumræðuna um hvers konar vanda og vantraust manna á milli er ljóst að upprisan hefur ekki enn vitjað okkar. Sem þjóð stöndum við enn við krossinn, vonsvikin, reið, sár, særð, ráðalaus, hrópum eins og lýðurinn forðum og leitum að sökudólg. Við leitum líka að Messíasi, leiðtoganum sem öllu góðu getur komið til leiðar. Við þurfum virkilega að fara að spyrja okkur hvort við ætlum að staldra enn við krossinn þegar ljóst er að páskasólin skín. Það kann að vera að upprisusólin sé á bak við skýin en við vitum að sólin kemur alltaf upp á ný, jafnvel þó við efumst um það þegar svartnættið er sem mest. Erum við enn að bíða eftir leiðtoganum? Leiðtogi lífsins fór til heljar um þriggja daga skeið en reis svo upp aftur. Þess minnumst við í dag og getum því hætt að leita hans. Jesús er leiðtoginn eini og sanni. Hann er upprisinn. Hann lifir og er hér og vill finna þig. Það mun færa þér gleði, frið og hamingju. Megi páskasólin verma þig, trúin umvefja þig og gleðin fylla líf þitt sælu. Gleðilega hátíð, í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.