Dymbilvika, kyrravika, hófst með pálmasunnudegi. Þá minntumst við innreiðar Jesú í Jerúsalem. Á skírdag minntumst við síðustu kvöldmáltíðar Krists er hann stofnaði heilagt altarissakramenti. 
Á föstudaginn langa minnumst við krossdauða Krists. Trúariðkun í Dymbilviku er íhugun þess leyndardóms sem þjáningin er, vonleysið, dauðinn. Og þar er Kristur hjá og líkn hans.

En með því út var leiddur
alsærður lausnarinn,
gjörðist mér vegur greiddur
í Guðs náðar ríki inn
og eilíft líf annað sinn,
blóðskuld og bölvan mína
burt tók Guðs sonar pína.
Dýrð sé þér, Drottinn minn.


Út geng ég ætíð síðan
í trausti frelsarans
undir blæ himins blíðan
blessaður víst til sanns,
nú fyrir nafnið hans
út borið lík mitt liðið
leggst og hvílist í friði,
sál fer til sæluranns.


Dýrðarkórónu dýra
Drottinn mér gefur þá,
réttlætis skrúðann skíra
skal ég og líka fá
upprisudeginum á,
hæstum heiðri tilreiddur,
af heilögum englum leiddur
í sælu þeim sjálfum hjá.


Hallgrímur Pétursson (Ps. 25)