„Það snertir mig djúpt, hvernig Jesús talar við konuna við Jakobsbrunninn. Guð gjörþekkir sérhvern mann og elskar mig alveg eins og ég er,“ segir Tina Evinyan (17) frá Koti. Fyrir tilstilli heimsókna Biblíufélagsins heyrði hún þessa sögu úr Biblíunni í fyrsta skipti og eignaðist sína eigin Biblíu í fyrsta sinn. „Ég vil vita miklu meira um Jesú,“ segir Tina.

Orð Guðs handa hinum gleymdu

Göturnar í Armeníu eru einatt ósléttar. Leiðin til fólksins, sem býr fyrir utan höfuðborgina Jerevan, er torsótt. Oft á ári heimsækir Arshavir Kapoudijan frá Hinu armenska biblíufélagi afskekkt smáþorp við landamærin. Fólkið þar er honum sérstaklega hjartfólgið. Fátæktin er mikil. Fólk nær vart endum saman vegna rýrrar uppskeru. Margt fólk finnur fyrir útskúfun, einangrun og því að það sé rekið út á Guð og gaddinn. „Það er mikilvægt að færa Orð Guðs, sem er lykillinn að lífinu, nær þessu fólki,“ segir Kapoudijan.

Í flestum þorpum er ekki lengur að finna virka söfnuði og margt fólk veit aðeins ósköp fátt um kristni og Biblíuna. Það hefur gríðarlega þýðingu fyrir fólkið að Kapoudijan gerir sér aukaferð úr höfuðborginni til þess. Ásamt presti býður hann þorpsbúum  til samkomu.  Þar deilir hann út Biblíum og ritum með útvöldum textum og fólk á öllum aldri sest niður og hlýðir á líkingar og kenningar Jesú. Þarna koma saman allt frá 25 til 300 manns eftir stærð þorpanna. Á þremur mánuðum heimsækir Kapoudijan sérhvert þorp og heldur vikulega fundi. Við lok þeirra er haldin guðsþjónusta, sem einatt markar upphaf nýrrar vakningar í virku safnaðarstarfi.

„Armenía er elsta kristna landið í heiminum, þótt þessi ríkulegi arfur hafi í tímans rás orðið kommúnismanum að bráð. Í dag uppgötvar fólkið þennan arf á nýjan leik. Vegna heimsókna okkar verða til nýir söfnuðir í afskekktum þorpum við landamærin. Fólkið þar vill lesa Biblíuna reglulega upp á eigin spýtur. Verið svo væn að biðja og stuðlið að því, að hjörtu fólksins fyllist ljósi fagnaðarerindisins.