Samband íslenskra kristniboðsfélaga, SÍK hefur frá upphafi starfað í mjög nánum tengslum við NLM úti á kristniboðsakrinum en það er stærsta lútherska kristniboðsfélag í heimi.

Kristniboðar vinna að boðun samhliða alhliða fræðslu, hjúkrun, heilsuvernd og margs konar þróunarverkefnum svo sem umbótum í landbúnaði, verndun vatnsbóla og fleiru. Á tímum hungursneyðar taka þeir þátt í víðtæku hjálparstarfi og matvæladreifingu.

Kristniboðar eru oft menntaðir kennarar, læknar, hjúkrunarfræðingar og guðfræðingar. Áður en þeir halda til starfa læra þeir tungumál viðkomandi þjóðar eða þjóðarbrots. Einnig fræðast þeir um siði og menningu fólksins.
SÍK hefur starfað mikið í Eþíópíu. Kristniboðarnir hafa unnið við læknis- og hjúkrunarstörf, fjármála- og stjórnunarstörf, neyðar- og þróunarhjálp, kennslu og boðunarstörf í Ómó Rate, Voíto, Gídole, Arba Minch, Sollamó, Robe, Negellí, Waddera og Addis Abeba.
Ávöxtur starfs SÍK t.d í Konsó er kirkja sem í eru um 100 söfnuðir með um 40.000 manns en allur þjóðflokkurinn er talinn vera um 250.000 manns.
Eftirfarandi myndband þýddi Kristján Þór Sverrisson kristniboði en það fjallar um þýðingu Biblíunnar yfir á Tsamei tungumálið í Voitó í Eþíópíu.
https://www.youtube.com/watch?v=y0ORooUZlcY