Hann gaf sýrlenskum flóttamönnum Biblíur.

Sóknarpresturinn Alfred Kirketerp baðst undan starfsafmælisgjöfum og óskaði þess í stað eftir styrkjum. Niðurstöðurnar komu skemmtilega á óvart.

Thilde Thordal Andersen segir frá / Þorgils Hlynur Þorbergsson þýddi úr dönsku.

Á hverjum sunnudegi biður Alfred Kirketerp, sóknarprestur í Assing, fyrir öllum þeim kristnu mönnum, sem sæta ofsóknum fyrir trú sína. Og hann biður fyrir því að hvert og eitt okkar viðurkenni ábyrgð okkar gagnvart þeim.

Þegar hann fagnaði 25 ára starfsafmæli sínu í mars árið 2015 sem sóknarprestur í Assing, tók hann afleiðingum kirkjubænar sinnar. Í stað þess að biðja um dýr vín og blóm, óskaði Alfred Kirketerp eftir því að kirkjugestir hans sendu frjáls framlög, sem rynnu til hjálpar ofsóttu, kristnu fólki í Sýrlandi.

Og sú upphæð sem safnaðist út frá þessari áskorun kom skemmtilega á óvart. Samtals 42.500 danskar krónur söfnuðust og um það bil 400 manns lögðu sitt af mörkum. Afraksturinn hefur Alfred Kirketerp gefið til styrktar starfi Alþjóðadeildar biblíufélagsins til hjálpar kristnum mönnum í Sýrlandi.

Biblían getur ráðið úrslitum.

En hvers vegna á að styðja einmitt þetta mál? Alfred Kirketerp segir frá:

„Um þessar mundir sjáum við nokkur dæmi um hinar hræðilegustu ofsóknir gegn kristnum mönnum sem sögur fara af, og það eru aðstæður sem liggja mér þungt á hjarta.“

Að hans mati getur stundum falist jafnmikil hjálp í því að fá Biblíu og að fá brauðhleif.

„Sú hvatning sem felst í því að fá Biblíu, verður til þess að manni finnist hann ekki vera gleymdur.“

Það endaði þó með því að Alfred Kirketerp fékk vín og blóm eftir allt saman — svo gjafmildir voru gestir hans. Sóknarpresturinn í Assing segir:

„Ég get aðeins hvatt aðra til þess að fylgja fordæmi mínu.“

Synne Garff, sem er yfirmaður alþjóðamála Biblíufélagsins, er mjög hrærð yfir frumkvæði Alfreds Kirketerp. Hún segir:

„Með þessu framlagi getum við glætt vonir fjölda fólks við skelfilegar aðstæður. Á meðal kristinna flóttamanna í Sýrlandi — já einnig í Jórdaníu, Írak og Líbanon, er mikið spurt eftir Biblíunni. Fólk á flótta líður fyrir að hafa misst sjálfsmynd sína og leitar af þeim sökum til róta sinna til þess að ná taki á einhverju. Allur heimurinn þarfnast gjafara á borð við Alfred Kirketerp.“