Síðasti óvinurinn
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
– Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 11.febrúar 2016 –

Dauðinn er náttúrulega ekkert annað en dauðans alvara. Við höfum hann ekki í flimtingum þegar hann er okkur nærri, þótt við vissulega grínumst oft með hann þegar hann virðist í óræðri fjarlægð. Húmorinn verður að vera til staðar. Og ég er viss um að betra er að deyja úr hlátri en leiðindum.

Enginn kemst af fyrir eigin rammleik

Það eina sem öruggt var þegar þú leist dagsljós þessarar að mörgu leyti dimmu og köldu veraldar var að þú myndir ekki sleppa frá henni lifandi eða að minnsta kosti ekki fyrir eigin rammleik.
Fyrr eða síðar munum við deyja. Það eru engar fréttir, það liggur nokkuð ljóst fyrir. Hvort sem við verðum bráðkvödd, deyjum af slysförum, fyrir aldur fram, í svefni eða vöku, vegna illvígra sjúkdóma eða í hárri elli.
Aðdragandan, daginn eða stundina veit enginn. Dauðinn er alltaf óþægilegur og kemur einhvern veginn alltaf á óvart. Við skiljum hann ekki, verðum sorgmædd og eitthvað svo skelfing umkomulaus.
Enn hef ég ekki hitt þá manneskju sem fer eitthvað auðveldlega í gegnum ævina. Verður ekki fyrir áföllum eða vonbrigðum. Öll missum við ástvini, berjumst við sjúkdóma og ekki síst okkar eigið sjálf.

Það dýrmætasta sem við eigum

Flest þráum við að fá að njóta lífsins og það að fá að halda í það. Lífið er jú það dýrmætasta sem við eigum. En þegar við stöndum frammi fyrir dauðanum þá erum við eitthvað svo skelfing vanmáttug. Tilvistarspurningar gerast áleitnar og svörin virðast oft fá.
Reyndar erum við alla ævina að deyja og við það fær enginn ráðið, þrátt fyrir hvers kyns námskeið og góðar tilraunir til þess að halda lífinu í okkar hrörnandi líkama. Samt höldum við áfram að hrörna, uns við veslumst endanlega upp og dyjum. Eða þangað til við hættum því við síðasta andvarp. Því þá lýkur forréttinum og aðalrétturinn tekur við.
Ég hef nefnilega þá óbilandi trú og er þess raunar fullviss að ævinnar ljúfustu og bestu stundir séu aðeins sem forréttur að þeirri lífsins veislu sem koma skal. Þar sem okkur býðst að sitja til borðs með sjálfum frelsaranum á hinni eilífu uppskeruhátíð yfir sigri lífsins. „Þá munum við sjá auglitis til auglitis.“ Tárin verða þerruð og spurningunum svarað. „Dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein, sársauki eða kvöl. Hið fyrra er farið. Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“ eins og segir í Opinberunarbók Jóhannesar.

Enginn á meiri kærleika

Jesús sagði: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyji. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu? – Ég lifi og þið munuð lifa!
Þess vegna finnst mér svo gott og spennandi að fá að lifa í núinu, njóta í þakklæti hverrar stundar í ljósi þeirrar dýrðar sem koma skal. Því að dauðinn er síðasti óvinurinn sem að engu verður gjörður.
Enginn á meiri kærleika en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Hvað þá svo þeir fái lifað um eilífð.
En nú varir trú, von og kærleikur. En þeirra er kærleikurinn mestur.
Lifi lífið!

Höfundur er rithöfundur og aðdáandi lífsins.