Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafa rekið þúsundir kristinna manna á flótta í Írak. Á meðal þeirra er hin 10 ára gamla Myriam, sem hefur fengið tækifæri til þess að segja öðrum börnum frá skoðun sinni á Íslamska ríkinu og fyrirgefningu á útvarpsstöðinni SAT-7 KIDS.

Margar hinna írösku barnafjölskyldna, sem hafa flúið íslömsku hryðjuverkasam-tökin Ríki íslams, halda til í bænum Erbil í hinum íraska hluta Kúrdistans. Þar var Essam, stjórnandi barnaþáttarins Why is that (Hvers vegna?) á SAT-7 Kids valinn til þess að gefa stríðshrjáðum börnum tækifæri til þess að segja áhorfendum um öll Mið-Austurlönd og Norður-Afríku sögu sína.

Í írösku flóttamannabúðunum hitti Essam 10 ára gamla, kristna flóttastúlku, Myriam að nafni. Ásamt fjölskyldu sinni þurfti hún að flýja frá bænum Qaraqoush, þegar flokkur vígamanna hertók svæðið. Essam spurði hana, hvað henni fyndist um það fólk, sem hafði rekið fjölskyldu hennar á flótta frá heimili sínu. Svar hennar var afdráttarlaust:

„Ég vil ekki gera þeim neitt mein, en ég vil biðja Guð um að fyrirgefa þeim. Ég fyrirgef þeim,“ sagði hún við þáttastjórnandann og hélt áfram:

„Í Biblíunni heyrum við að Jesús segir, að við eigum ekki að vera hrædd og að við eigum að fyrirgefa öðrum, jafnvel þótt  þeir hati okkur. Við neyðumst því til þess að fyrirgefa þeim.“

Snúist til íslamstrúar, deyið eða leggið á flótta

Þegar Íslamska ríkið lagði undir sig írösku borgina Mosul og aðrar borgir í nágrenninu, voru þúsundir manna teknar af lífi eða þeim var rænt. Þeim sem ekki voru múslimar á þessu svæði, einkum kristnum og jasídum — var gefinn kostur á að vera drepin, snúast til íslamstrúar eða leggja á flótta. Rúm milljón manna flúði síðan til íraska hluta Kúrdistans, þar sem þau búa í flóttamannabúðum.

Á meðan dreymir Myriam um að starfa fyrir Lækna án landamæra, þegar hún verður stór: „Hér er alls staðar fólk, sem þarfnast meðferðar. En það eru bara svo fáir sem hafa efni á því að fá einfalda læknisaðstoð frá þeim sem eru hér. Jesús segir á einum stað, að þegar maður hefur frelsast, á hann líka að frelsa aðra. Þess vegna eigum við að auðsýna fólki miskunn og bjóða því  meðferð.

SAT-7 vegnar vel á félagsmiðlunum

SAT-7 ARABIC og KIDS náðu til um það bil 40 milljóna manna í gegnum Facebook árið 2014.
Í hverjum mánuði sjá 675.000 manns útsendingar SAT-7 ARABIC í gegnum YouTube.
SAT-7 PARS hefur tvöfaldað áhorfendafjölda sinn árlega á YouTube undanfarin fjögur ár.

Sjá nánar á http://www.bibelselskabet.dk/nyheder/nyhedsoversigt/arkiv2015/sat7_myriam

Þorgils Hlynur Þorbergsson þýddi