Biblían á blindraleti er nú loks aðgengileg fyrir alla þá sem lesa blindraletur í Noregi. Það er bókaútgáfan KABB sem á heiðurinn af útgáfunni og eru útgefendur stoltir af verkinu, enda gefur það blindum og sjónskertum í fyrsta sinn færi á að lesa biblíutextana á eigin forsendum.

“Mér finnst frábært að Biblían er nú komin á blindraletur. Ég ætla að kaupa mér eintak því mér finnst svo gaman að geta lesið sjálf. Mér þykir það hentugra og fljótlegra að hafa textann á pappír í staðinn fyrir rafrænar útgáfur, því með því að lesa af pappír skapast annað samband við textann sem ég les”, segir Ranveig Bredesen. Hún er blind, er menntaður djákni og segir frá því að hún hafi haft aðgang að Nýja testamentinu á blindraletri á meðan hún var í skóla.

Biblíuútgáfan er samstarfsverkefni bókaútgáfunnar KABB, norska Biblíufélagsins og blindrabókasafnsins. Ingeborg Mongstad-Kvammen, framkvæmdastjóri norska Biblíufélagsins gleðst yfir verkefninu og lokum þess.

“Þetta eru gleðitíðindi ársins! Ég er viss um að margt fólk hefur beðið eftir að fá alla Biblíuna á blindraletri og nú er hún komin”! segir Ingeborg í viðtali við fréttavef norska Biblíufélagsins.