Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu eftir biskup Íslands frú Agnesi M. Sigurðardóttur:

Strax er mér varð ljós alvara hryðjuverkaárásanna í París, að kvöldi föstudagsins 13. nóvember sl., óskaði ég eftir því við presta og djákna þjóðkirkjunnar að í messum sunnudagsins yrði sérstaklega beðið fyrir þolendum árásanna. Fólki sem átti sér einskis ills von og naut lífsins með vinum og samferðafólki.
Ofbeldi er best svarað með hugrekki og kærleika. Hin kristna köllun kennir okkur að feta í fótspor Jesú Krists. Eitt af því sem hann kenndi var að biðja. Margir þekkja mátt bænarinnar. Hún hefur verið nefnd tungumál vonarinnar. Hún er farvegur góðra hugsana til þeirra sem um sárt eiga að binda. Hér heima fyrir og alls staðar þar sem ráðist er gegn saklausu fólki.
Öll þörfnumst við friðsælla stunda sem færa okkur innri ró og þrótt til að láta gott af okkur leiða. Kirkjan er samfélag kærleika og bænin er samfélag við Guð. Slíkt samfélag á sér stað í helgihaldi kirkjunnar og einnig hvarvetna þar sem bæn er beðin, heima við, á gönguferð úti í náttúrunni eða í umferðinni. Guð er þar. Þegar bænarandinn er vakinn er gott að biðja með okkar eigin orðum, með bænarorðum annarra eða án orða með því að hlusta á Guð.
Undanfarið hafa gefist mörg tækifæri til að hugsa um það hvernig bregðast á við ofbeldi hvers konar. Það þarf ekki að leita langt yfir skammt til að sjá birtingarmynd ofbeldis og illsku. Orð friðarverðlaunahafans Desmonds Tutus í íslenskri þýðingu Arinbjörns Vilhjálmssonar minna á að kærleikurinn er vopn í baráttunni gegn illsku og hatri.
Gæskan er öflugri en illskan,
ástin gegn hatrinu fer,
ljósgeislinn lýsir upp myrkrið,
lífið af dauðanum ber!
Sigurinn fæst, sigurinn fæst
því ást Guðs er næst.
Kærleiksboðskapur Krists er sá dýrmæti fjársjóður sem öllum er ætlaður. Það þarf ekki fjármagn til að eignast hann. Hvikum hvorki frá honum né þeim lífsgildum sem ganga út frá dýrmæti hvers barns er fæðist í þennan heim. Sameinumst í bæn fyrir friði í dag og alla daga.