Samband íslenskra kristniboðsfélaga (SÍK) er landssamtök kristniboðshópa, félaga og einstaklinga sem vinna að kristniboði og hjálparstarfi víða um heim.
Starfssvæði SÍK er aðallega í Afríkulöndunum Eþíópíu og Keníu og einnig í Japan en í þessum löndum starfa íslenskir kristniboðar. SÍK styður einnig útsendingar kristilegra útvarpsþátta til Kína og er aðili að SAT-7, sjónvarpsstöð sem sendir kristilega dagskrá til Mið-Austurlanda og Norður-Afríku. Megnið af þeirri dagskrá er framleidd í Líbanon og Egyptalandi, en starf SAT-7 er samkirkjulegt. Stöðin sendir út kristilegan boðskap á fjórum rásum. Í meira en áratug hefur SAT-7 styrkt kristna einstaklinga og kirkjur með útsendingum sínum um kristna trú.

Sat-7 hefur það að markmiði að veita kirkjum og kristnu fólki í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku tækifæri til að vitna um Jesú í gegnum áhugaverða og menntandi sjónvarpsstöð. Áherslan er lögð á fyrirgefningu Krists og kærleika. Þættir á stöðinni ná til ungs fólks og samkvæmt könnunum horfa um 10 milljónir barana og unglinga undir 16 ára aldri reglulega á barnarás Sat-7. Um aldamótin 1900 voru kristnir Arabar 20 % af fólksfjöldanum í Miðausturlöndum. Í dag eru þeir færri eða aðeins 4 % og fer fækkandi. Kristið fólk býr í öllum löndum Arabaheimsins en að þeim er þrengt, þeir geta ekki alls staðar tjáð trú sína opinberlega og þurfa oft að halda guðsþjónustur bak við luktar dyr. Útsendingar Sat-7 sjónvarpsstöðvarinnar er ein besta leiðin til að styðja, uppörva og hjálpa hinum kristnu á svæðinu.

Rúmlega 500 milljónir manna búa í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og um helmingur þeirra hefur aðgang að gervihnattasjónvarpi. Dagskráin nær einnig til flestra landa Evrópu þar sem margir arabískumælandi innflytjendur búa. Stöðin leitast við að vera samkirkjuleg, gagnrýna ekki önnur trúarbrögð heldur leitast við að koma kristinni kenningu á framfæri og uppörva svo allir áhorfendur finni fyrir kærleika Guðs.
Sameinuðu biblíufélögin styðja við starf SAT-7.

Sjá nánar http://sik.is/sat-7-sjonvarpsstodin-hittir-flottamenn/