Í ár er Hið íslenska biblíufélag 200 ára og hefur því verið fagnað með ýmsum viðburðum frá því í upphafi árs. Síðasti viðburðurinn í tilefni afmælisins verður haldinn í Dómkirkjunni föstudaginn 11. desember kl.20. En þar munu Margrét Hannesdóttir, sópran og Hólmfríður Sigurðardóttir, píanóleikari, flytja tónlist sem samin hefur verið við texta Biblíunnar. Tónlistin sem flutt verður er bæði íslensk og erlend og má þar nefna Ljóðaljóð Páls Ísólfssonar, Biblíuljóð Dvořáks sungin á íslensku og Rejoice úr Messíasi eftir Händel.
Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.
Margrét Hannesdóttir, sópran, hóf söngnám í Söngskólanum í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur en síðan í Söngskóla Sigurðar Demetz undir leiðsögn Sigrúnar Hjálmtýsdóttur. Hún lauk meistaranámi í söng með láði árið 2013 frá Westminster Choir College í Princeton Bandaríkjunum þar sem kennari hennar var Sally Wolf. Meðfram meistaranáminu fékk hún tækifæri til að syngja hlutverk í óperuuppfærslum, fyrsta piltinn í Töfraflautunni og hlutverk Obertos úr Alcinu eftir Händel. Hún hefur tvisvar sungið hlutverk Norinu í óperunni Don Pasquale, á Íslandi og með L’Opera Piccola í Þýskalandi árið 2014. Margrét söng einsöng í Sálumessu Mozarts með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og Háskólakórnum 2013. Hún hefur sungið á mörgum tónleikum á Íslandi, Ítalíu, í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Þá hefur hún sótt námskeið víðsvegar hjá m.a. Dalton Baldwin, Kristjáni Jóhannssyni, Peter Bortfeldt, Aris Cristofellis og Domenico Balzani. Einnig hefur hún farið í einkatíma á Ítalíu og í Þýskalandi hjá Angelo Capobianco, Margherita Guglielmi, Denia Mazzola, Josef Protschka og Dorothea Schwarz.
Hólmfríður Sigurðardóttir hóf píanónám sitt í Tónlistarskóla Ísafjarðar, þar sem Ragnar H. Ragnar var aðalkennari hennar. Hún lauk einleikara- og kennaraprófi frá Tónlistarháskólanum í München. Hún hefur sótt fjölmörg námskeið, sem meðleikari m.a. hjá Graham Johnson og Roger Vignoles og sem einleikari hjá þýska píanóleikaranum Ludwig Hoffmann og rússunum Vladimir Viardo og Andrei Gavrilov. Hólmfríður hefur haldið einleikstónleika víða um land og leikið með fjölmörgum söngvurum á tónleikum, í útvarpsupptökum og inn á geisladiska. Hún hefur farið í tónleikaferðir til Evrópulanda og Ameríku og spilaði m.a. einleik á tónlistarhátíð í Portúgal árið 2000. Einnig hefur hún leikið íslenska píanótónlist erlendis, m.a. í London og Helsinki. Árið 2005 var hún ásamt Gissuri Páli Gissurarsyni söngvara ein af fulltrúum Íslands á Heimssýningunni í Nagoya í Japan, þar sem þau héldu yfir tuttugu tónleika. Hún hefur leikið með fjölda kóra í gegnum árin, m.a. Sunnukórnum á Ísafirði, undir stjórn Ragnars H. Ragnar og Óperukórnum í Reykjavík, undir stjórn Garðars Cortes. Hún starfar sem meðleikari við Söngskólann í Reykjavík.